RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Þórhildur, Lísa, Kristín og Viktoría fengu Fjölmiðlaverðlaun götunnar í dag

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fjölmiðlaverðlaun götunnar voru veitt í fyrsta sinn í dag við hátíðlega athöfn á Landsbóksafninu, en þau eru veitt blaða- frétta- og fjölmiðlafólki fyrir málefnalegar og góðar umfjallanir um fátækt á Íslandi á árinu 2016.

Fjölmiðlaverðlaun götunnar eru samstarfsverkefni EAPN og Pepp-samtaka nokkurra Evrópulanda og er verkefnið unnið að fyrirmynd systursamtaka í Austurríki, Die Armutskonferenz, sem hefur veitt samskonar verðlaun frá árinu 2011. Verkefnið heitir á frummálinu Journalismuspreis “von unten” (Journalism Prize from below, á ensku), sem hefur verið þýtt sem "Fjölmiðlaverðlaun götunnar" þar sem það fellur að íslenskri málvenju.

Markmið verðlaunanna er að efla málefnalega umræðu um fátækt á Íslandi. Verðlaunin eru táknræns eðlis og eru viðurkenning fyrir það fjölmiðla-, blaða- og fréttafólk sem sinnir málstaðnum af kostgæfni og virðingu.

Við óskum Þórhildi Ólafsdóttur (Rás 1),  Lísu Pálsdóttur (Rás 1), Kristínu Sigurðardóttur (fréttastofa RÚV) og Viktoríu Hermannsdóttur (fréttastofa RÚV) innilega til hamingju með viðurkenninguna!