RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Þáttaröðin Með okkar augum hlýtur Mannréttindaverðlaun

Mannréttindaverðlaun Reykjavíkurborgar 2017.
 Mynd: RÚV
Þáttaröðin „Með okkar augum“ hlaut í morgun Mannréttindaverðlaun Reykjavíkurborgar á mannréttindadegi borgarinnar við hátíðlega athöfn í Höfða.

Með umfjöllun sinni hefur þáttastjórnendum tekist að auka skilning á réttindum fatlaðs fólks. Þættirnir hafa verið á dagskrá Ríkisútvarpsins síðastliðin sex ár og áætlar hópurinn að leggjast í framleiðslu á sjöundu seríu innan skamms.

Þau Andri Freyr Hilmarsson, Eiður Sigurðsson, Katrín Guðrún Tryggvadóttir, Skúli Steinar Pétursson, Steinnunn Ása Þorvaldsdóttir og Elín Sveinsdóttir, framleiðandi, voru verðlaunuð fyrir að hafa stuðlað að vitundarvakningu um stöðu fólks með þroskahömlun, getu þess, skoðanir og langanir. 

Hópurinn var að vonum ánægður með viðurkenninguna. Steinunn Ása Þorvaldsdóttir, dagskrárgerðarkona, segir að skilaboðin sem þau vilji senda með þáttaröðinni séu þau að fatlað fólk geti gert allt ef þau fá viðeigandi aðstoð.

Elín Sveinsdóttir, framleiðandi þáttanna, sagði verðlaunin vera mikla viðurkenningu fyrir aðstandendur „Með okkar augum“. Þau hafi viljað breikka ásýnd samfélagsins og sýna aukinn fjölbreytileika. 

Verðlaunin eru afhent í tíunda skiptið í ár. Þau eru veitt þeim einstaklingum, félagasamtökum eða stofnunum sem hafa á eftirtektarverðan hátt staðið vörð um mannréttindi tiltekinna hópa.