RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

RÚV hlýtur Gullmerki jafnlaunaúttektar PwC

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
RÚV hefur hlotið Gullmerki jafnlaunaúttektar PricewaterhouseCoopers (PwC). Úttektin greinir hvort fyrirtæki greiði starfsmönnum, óháð kyni, sömu laun fyrir sambærileg störf. 

RÚV fékk engar athugasemdir og þurfti ekki að koma til neinna breytinga eða lagfæringa til að fyrirtækið uppfyllti skilyrði, sem Gullmerkið byggir á. Til að hljóta Gullmerkið þarf launamunur kynjanna að vera undir 3,5%. Samkvæmt formlegri greiningu er RÚV nokkru undir þessu marki, eða með 3,1%. Á fundi með starfsfólki í dag tilkynnti Magnús Geir Þórðarson, útvarpsstjóri að RÚV ætlaði að halda áfram að bæta þessi mál og hét því að á næstu tveimur mánuðum yrði unnið samkvæmt jafnlaunalíkani PWC til að ná enn betri stöðu og að fyrir 1. júní skuldbindi RÚV sig til að ná þessum mun niður fyrir 2%. Markmiðið er að útrýma launamun með öllu hjá RÚV.

RÚV hefur ríkum skyldum að gegna sem fjölmiðill í almannaþjónustu – ekki einvörðungu við að spegla samfélagið hverju sinni heldur sem uppbyggilegt hreyfiafl í samfélaginu. Því hefur meðal annars verið unnið markvisst að því að jafna stöðu karla og kvenna í allri starfsemi og dagskrá. 

RÚV hlaut fjölmiðlaviðurkenningu Jafnréttisráðs þann 24. október sl. fyrir metnaðarfullt jafnréttisátak til að jafna stöðu kynja í umfjöllun og meðal starfsfólks. Í umsögn ráðsins með viðurkenningunni segir að gerðar hafi verið róttækar breytingar í framkvæmdastjórn stofnunarinnar með þeim árangri að þar sitji nú jafnmargar konur og karlar. Það sama hafi verið gert í hópi millistjórnenda. Samhliða þessu hafi verið unnið að bættri samþættingu vinnu og einkalífs starfsfólks miðilsins. Tekist hefur að ná jafnvægi í hópi umsjónarmanna sem birtast í sjónvarpi og heyrast í útvarpi. Að þessu leyti sker RÚV sig frá öðrum ljósvakamiðlum hér á landi. 

Liður í jafnréttisvinnu RÚV er samræmd skráning á kynjahlutfalli viðmælenda sem tekin var upp þann 1. desember 2015 og birt er opinberlega á þriggja mánaða fresti. Skráðir eru viðmælendur í fréttum og fréttatengdum þáttum sem og í reglubundum innlendum þáttum í útvarpi og sjónvarpi. Talning sem þessi gefur ekki heildarmynd af því hvernig birtingarmynd karla og kvenna er í dagskránni en hún er mikilvægur liður í því að mæla hver staðan og þróunin er.

Magnús Geir Þórðarson, útvarpsstjóri:

„Við fögnum því mjög að hljóta Gullmerkið. Við höfum unnið markvisst að því síðustu ár að jafna stöðu kynjanna, í starfseminni allri. Við erum afar stolt af þeim árangri sem þegar hefur náðst – þó við vitum að betur má ef duga skal. Við ætlum okkur að ná í land og vera til fyrirmyndar í jafnréttismálum á allan hátt en Gullmerki PwC er mikilvæg viðurkenning á því, að við séum á réttri leið.“