RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Jákvæður rekstur árið 2016

Mynd með færslu
Í nýjum  ársreikningi RÚV kemur fram að áframhaldandi hallalaus rekstur er hjá félaginu sem skilar 95 m.kr. hagnaði af reglulegri starfsemi.

Því til viðbótar bætist söluhagnaður upp á rúman 1,6 milljarð króna vegna sölu á byggingarrétti á lóð félagsins, ávinningurinn er notaður til að greiða niður skuldir félagsins. Mikill jákvæður viðsnúningur hefur orðið í rekstri félagsins á síðastliðnum þremur árum  og er eigið fé félagsins nú komið í 23,8% eftir sölu byggingarréttarins en var 6,2% í lok ársins 2015.

Magnús Geir Þórðarson, útvarpsstjóri segir: “Jákvæð rekstrarniðurstaða annað árið í röð undirstrikar árangur af umbótaferli sem hefur komið á jafnvægi í rekstri RÚV samhliða breyttum dagskráráherslum. Þennan árangur þökkum við samtakamætti frábærs starfsfólks RÚV. Hann hefur náðst þrátt fyrir krefjandi rekstraraðstæður og ítrekaða lækkun á útvarpsgjaldi á undanförnum árum. Sala byggingaréttar skilar RÚV umtalsverðum söluhagnaði sem leiðir til mikillar skuldalækkunar og mikilla bóta á eigin fé félagsins. Nýr þjónustusamningur sem undirritaður var á síðasta ári tryggir loks fyrirsjáanleika og öryggi í tekjum félagsins til næstu ára. Á hinn bóginn er félagið enn of skuldsett frá gamalli tíð og er það mikill baggi á starfseminni í dag en á þeirri yfirskuldsetningu þarf að taka. Staða RÚV er sterk, hvort heldur sem litið er til rekstrarlegs árangurs eða notkunar og viðhorfs almennings. Þjónustuhlutverk RÚV við allt samfélagið til framtíðar er hlutverk sem við sem við nálgumst af metnaði og auðmýkt á degi hverjum. Það eru spennandi tímar framundan.”

Ársreikningur RÚV sem birtur var í Kauphöll.