RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Fjölbreytt og skemmtileg vetrardagskrá RÚV 2016 – 2017

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Vetrardagskrá RÚV hefur verið kynnt og er nú aðgengileg á kynningarvef. Í öllum miðlum er menningarefni í öndvegi, áhersla á innlent gæðaefni, þjónusta við börn stórbætt og starfsemi á landsbyggðinni efld.

Skoðið kynningarvef hér.

Vetrardagskrá sjónvarps

Á RÚV verður innlend dagskrá sem fyrr höfð í hávegum og leitast við að bjóða upp á vandað og fjölbreytt efni sem hefur yfir að búa ríkulegu fræðslu-, skemmtana- og menningargildi. Leikið íslenskt efni fær veglegan sess á sunnudögum og í hátíðardagskrá um jól þar sem hæst mun bera á nýrri leikinni íslenski þáttaröð, Föngum, í leikstjórn Ragnars Bragasonar. Þá verður um páska boðið upp á nýja þáttaröð fyrir alla fjölskylduna, Loforðið eftir þá Guðjón Davíð Karlsson og Braga Þór Hinriksson. Að auki verða frumsýndar nýjar íslenskar kvikmyndir sem og endursýndar sérvaldar íslenskar sjónvarpsmyndir í tilefni hálfrar aldar afmælis sjónvarps á Íslandi.

Menningarefni af ýmsum toga verður áberandi í dagskrá RÚV. Þriðja þáttaröðin af Eddu-verðlaunaþættinum Orðbragði hóf göngu sína s.l. sunndag og í október hefst þáttaröðin Reimleikar þar sem draugatrú Íslendinga er tekin til skoðunar ásamt annarri þjóðtrú. Ný þáttaröð helguð myndlist lítur dagsins í vetur ljós auk þess sem Kiljan og Menningin verða á sínum stað. RÚV mun sjónvarpa beint frá fjölda menningarviðburða og tónleika og sýna upptökur frá Listahátíð, vinsælum leiksýningum og heimsókn San Fransisco ballettsins til Íslands síðasta vor, svo eitthvað sé nefnt. Í upphafi næsta árs verða vönduðum íslenskum heimildamyndum gert hátt undir höfði í sérstakri „heimildamyndahátíð“, en þær gefa okkur mikilvæga innsýn í íslenskan raunveruleika. Jón Ársæll Þórðarson mætir til leiks á RÚV í splunkunýrri þáttaröð, Paradísarheimt, þar sem rætt verður við fólk sem á það sameiginlegt að hafa glímt við geðræna sjúkdóma. Góðkunnir heimilisvinir verða á sínum stað, svo sem Vikan með Gísla Marteini, Útsvar, Ísþjóðin, þriðja þáttaröðin af Ferðastiklum og Andri á flandri, en í þetta sinn skoðar hann túristalandið Ísland með opnum hug.

Að vanda mun RÚV sýna fjölbreytt erlent gæðaefni frá öllum heimshornum í vetur. Áhersla er lögð á leikið efni sem vakið hefur verðskuldaða athygli og má þar nefna bresku þáttaröðina E-orðið (The A Word), sænska glæpaþáttinn Miðnætursól (Midnattsol) og spennuþáttinn Næturvörðinn (The Night Manger).  Nokkrar af ástsælustu erlendu þáttaröðunum halda göngu sinni áfram svo sem eins og Poldark, Glæpahneigð (Criminal Minds) og Spilaborg (House of Cards).

Heimildaefnið verður fjölbreytt að vanda. Vandaðir dýralífsþættir eiga sinn fasta stað í dagskránni, saga sjónvarpsins er rakin í 11 þáttum, sjöundi áratugurinn er rifjaður upp, saga klassískrar tónlistar rakin í fjórum þáttum og fjallað verður um ævi Walt Disney svo eitthvað sé nefnt.

Að venju verður íþróttadeild RÚV á fullri ferð í vetur.  Fótbolta- og körfuboltalandsliðin verða eldlínunni þar sem keppt er um sæti í lokakeppni Evrópu- og Heimsmeistaramótsins. Karlalandsliðið í handbolta tekur þátt á HM í handbolta í janúar og fimleikafólkið okkar stendur í ströngu á Evrópumótinu í hópfimleikum í október.  RÚV heldur áfram að fylgja eftir hinum ýmsu íþróttagreinum hér heima og að sjálfsögðu verður Skólaheysti í sínum stað.

Vetrardagskrá Rásar 1

Rás 1 er einn helsti burðarásinn í starfsemi Ríkisútvarpsins og einstök í hópi íslenskra útvarpsstöðva. Rás 1 svalar forvitni hlustenda um margbrotna heima menningar og samfélags allan sólarhringinn alla daga ársins. Hún veitir innsýn í það sem er efst á baugi en þar eru leitaðar uppi sögur og sjónarmið sem ekki rata í fyrirsagnir fréttatímanna. Á Rás 1 er lagt kapp á að fjalla um menningu og raunar allt mannlíf út frá nýjum og áhugaverðum sjónarhornum, greina, skýra, vekja skilning og umfram allt nýjar hugsanir. Rætt er við fólk sem þú vilt vita meira um, sagðar sögur af körlum og konum sem þú vissir ekki að væru til og aflað heimilda um atburði sem þú gast ekki ímyndað þér að hefðu átt sér stað, skildir ekki eða hafðir ekki uppgötvað að væru áhugaverðir.

Í vetur er ástæða til að vekja sérstaka athygli á nýjum þáttum í dagskrá Rásar 2. Í Morgunverði meistaranna ber Pétur Grétarsson á borð ráðlagðan dagskammt af tónlist alla virka morgna kl. 8. Óðinn Jónsson fjallar áfram um helstu fréttamál á Morgunvaktinni sem nú hefst kl. 6.50. Lestin nefnist nýr síðdegisþáttur um menningu í umsjón Eiríks Guðmundssonar og Önnu Gyðu Sigurgísladóttur. Lestin fer í loftið kl. 17 alla virka daga, strax á eftir Víðsjánni sem heldur sínu striki en nú kl. 16. Útvarpsleikhúsið flyst á nýjan útsendingartíma kl. 14 á laugardögum. Átta ný íslensk leikrit verða frumflutt í vetur úr ólgandi iðu íslensks samfélags eftir höfunda á öllum aldri fyrir fólk á öllum aldri. Ný barna- og fjölskylduleikrit verða nú bæði um jól og páska. Á laugardagsmorgnum verða heimildaþættir um ýmis mál sendir út kl. 10.15 og kl. 17 verða heimildaþáttaraðir um tónlist, meðal annars tíu þættir Árna Heimis Ingólfssonar um misskilda snillinginn Mozart. Feðgarnir Erlingur Gíslason og Benedikt Erlingsson lesa Hómerskviður í vetur og Guðbergur Bergsson les tímamótaverkið Tómas Jónsson: Metsölubók sem kom út fyrir fimmtíu árum. Þessi stórvirki verða kynnt hlustendum með viðtölum við sérfræðinga og áhugafólk um bókmenntir. Barnaþættirnir Vísindavarp Ævars, Inn í heim tónlistarinnar með Möggu Stínu og Saga hlutanna og hugmyndanna halda áfram en við bætist Stundin okkar þar sem Sigyn Blöndal mun forvitnast um hugðarefni barna víðsvegar um landið. Þannig mun Rás 1 halda áfram að bjóða upp á fjölbreytilegt efni fyrir forvitið fólk á öllum aldri.

Vetrardagskrá Rás 2

Íslensk tónlist er hjarta Rásar 2. Meginhlutverk Rásarinnar er að fylgjast með og sinna íslenskri tónlist. En það er ekki bara hjartað sem heldur henni á lífi. Rás 2 er öflugt dægurmálaútvarp með puttann á púlsinum í dægurmálum, menningu og þjóðmálaumræðu.

Nokkrar breytingar eiga sér stað á virkum dögum í vetur. Morgunútvarpið er nú frá sjö til tíu á morgnana. Þau Sigmar og Guðrún Sóley hafa fengið til liðs við sig nýjan umsjónarmann, Aðalstein Kjartansson. Þetta er snarpur, beittur og líflegur morgunþáttur. Mattthías Már Magnússon tekur svo við með Popplandið fram að hádegisfréttum. Eftir fréttirnar tekur við nýr þáttur, Dagvaktin. Þátturinn er í umsjón þeirra Sölku Sólar Eyfeld og Þórðar Helga Þórðarsonar (Dodda litla). Dagvaktin er tónlistarþáttur þar sem lögin við vinnuna eru í aðalhlutverki en kryddaður með hressilegum dagskrárlðum eins og þáttastjórnendum er einum lagið. Síðdegisútvarpið er svo á sínum stað en við Eldhúsverkunum tekur Atli Már Steinarsson. 

Tveir nýir þættir líta dagsins ljós um kvöld og helgar. Andri Freyr Viðarsson stýrir nýjum þætti á sunnudögum klukkan þrjú – Talandi um það. Andri hefur næmt auga fyrir áhugaverðu fólki og spennandi sögum sem alla jafna fara framhjá okkur í hversdeginum. Í þessum nýja þætti kynnumst við þessu fólki og þessum sögum. Rabbabari er svo nýr þáttur í umsjón Atla Más og Sölku Sólar á þriðjudagskvöldum. Þetta er þáttur sem er sérstaklega tileinkaður íslenskri hip hop tónlist. Atli og Salka fjalla um það nýjasta í íslensku hip hop senunni og fá til sín gesti úr íslensku rappdeildinni.

Á undanförnum árum hefur Rás 2 sífellt aukið umfjöllun um og beinar útsendingar frá hinum ýmsu viðburðum. Oftast eru þessir viðburðir tengdir íslenskri tónlist. Rás 2 er sannkallað viðburðaútvarp. Í ár sinnir Rás 2 m.a. Iceland Airwaves, Músiktilraunum, Secret Solstice, Bræðslunni, Sónar og fjölmörgum öðrum tónlistarhátíðum og viðburðum. Auk þess sem hlustendum dagsins í dag er boðið upp á beinar útsendingar og upptökur af helstu tónlistarhátíðum landsins þá er með þessu verið að skrásetja íslenska tónlistarsögu.

Fréttastofan í vetur

Fréttastofan færir landsmönnum helstu tíðindi innanlands og utan, alla daga ársins, allan sólarhringinn.  Á vefnum – í útvarpi  - í sjónvarpi. Engar stórvægilegar breytingar eru áformaðar á fréttaþjónustu RÚV á komandi ári. 

Í vor tóku veðurfréttir í sjónvarpi breytingum með bættri myndrænni framsetningu og nýju veðurkerfi (veðurfréttakerfi?). Markmið fréttastofunnar er að veita bestu mögulegu veðurþjónustu og halda áfram að þróa hana og efla. 

Uppbyggingu RÚV á landsbyggðinni er hvergi lokið og í vetur verða fréttamenn í fullu starfi í öllum landsfjórðungum. Við árslok verða ellefu frétta- og dagskrárgerðar og tæknimenn RÚV starfandi á Akureyri, Egilsstöðum, Ísafirði, Borgarnesi og á Suðurlandi.

Kastljós er komið á fullt skrið eftir sumarfrí og leggur áfram áherslu á ítarlegar fréttaskýringar og beitt viðtöl. Menningin verður áfram á sínum stað með vandaða og fjölbreytta umfjöllun.  Fréttaskýringaþátturinn Spegillinn  heldur áfram á sama tíma og áður á Rás 1 og Rás 2 alla virka daga.

Landsmenn ganga að kjörborðinu í haust og kjósa sér fulltrúa á Alþingi. RÚV mun kanna hug kjósenda og fjalla ítarlega um öll framboð, málefni og kjördæmi í útvarpi, sjónvarpi og á RÚV.is.

Krakkar láta ljós sitt skína á KrakkaRÚV

Sjónvarpsdagskráin verður mjög fjölbreytt. Í boði verða yfir 40 þáttaraðir af talsettu barnaefni og verða traustir vinir eins og Ævar vísindamaður og Krakkafréttir á sínum stað. Einnig fer glæný útgáfa af Stundinni okkar í loftið í umsjón Sigynjar Blöndal. Hún fer m.a. í hringferð í kringum landið allt og kynnist krökkum sem koma vægast sagt á óvart.

KrakkaRÚV fjallar einnig ítarlega um Skólahreysti, Samfés, Upptaktinn, Skrekk og fleiri viðburði sem skipta börn máli.

Í útvarpi KrakkaRÚV er leikin íslensk barnatónlist alla daga vikunnar í bland við lesnar sögur, leikin ævintýri og vandaða barnaþætti.

Á KrakkaRÚV.is má nálgast alla barnaafþreyingu á einum stað ásamt skemmtilegum leikjum og skapandi þrautum.

Markmið KrakkaRÚV er að gleðja börn, fræða og hvetja til skapandi verka. Snemma á árinu kynnum við því til leiks Snjallkrakka, vettvang fyrir börn þar sem þau fá tækifæri til að láta ljós sitt skína. Þar geta þau deilt hugmyndum sínum og hæfileikum með öðrum börnum.

#krakkargeta

 

 

06.09.2016 kl.18:56
Samskiptasvið RÚV
Birt undir: Í umræðunni, dagskrá, Í umræðunni, Sjónvarpsdagskráin, þættir