Vita engin deili á stúlkunni úr Breiðholtslaug

05.04.2017 - 09:05
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Yfirvöld í Reykjavíkurborg hafa ekki náð að setja sig í samband við móður fjórtán ára stúlku sem varð fyrir grófri kynferðislegri áreitni í Breiðholtslaug í byrjun síðustu viku. Þetta segir Þórgnýr Thoroddsen, formaður Íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkurborgar. Stúlkan hafi verið farin úr lauginni þegar starfsmönnum var tilkynnt um málið og enginn hjá borginni viti deili á henni eða móður hennar.

Þórgnýr var gestur Morgunútvarpsins á Rás 2 í morgun og ræddi þar um málið, sem DV hefur fjallað um að undanförnu. Í umfjöllun DV hefur komið fram að tveir menn, um og undir fertugu, hafi látið mjög óviðurkvæmileg orð falla í garð stúlkunnar. Annað fólk, sem var í lauginni, hafi reynt að fá þá til að hætta en án árangurs. Mennirnir voru misþroska eða glímdu við einhvers konar andlega erfiðleika.

Móðirin hefur sagt við DV að hún sé mjög ósátt við það hvernig starfsmenn laugarinnar tóku á málinu. Mjög óeðlilegt sé að dóttur hennar hafi verið leyft að ganga heim úr lauginni að kvöldlagi um svipað leyti og mönnunum var hleypt af svæðinu eftir tiltal. Þá telur hún að rétt hefði verið að kalla lögreglu til. Hún hefur kallað eftir því að starfsmaður laugarinnar verði rekinn vegna málsins. Konan hefur ekki tjáð sig undir nafni, til að vernda dóttur sína.

Í máli Þórgnýs í Morgunútvarpinu kom hins vegar fram að annar sundlaugargestur hafi tilkynnt starfsmanninum um atvikið. „Það sem flækir málið er að þegar starfsmenn fá þessar upplýsingar er stelpan farin af svæðinu, þar af leiðandi hefur ekki verið hægt að hafa samband við hana eða móðurina. Við vitum ekki hverjar þær eru. Annars hefði það augljóslega verið það fyrsta í stöðunni,“ útskýrir hann.

Allir starfsmenn sækja námskeið um kynferðisbrot

Þórgnýr segir að allir starfsmenn sundlauga Reykjavíkurborgar þurfi að sækja námskeið þar sem þeir læri að þekkja kynferðisbrot og kynferðislega misnotkun og bregðast við þegar slík mál koma upp. Hann hafi sjálfur setið námskeiðið í þrígang og það sé „dúndurgott“. Hann segist hins vegar ekki vita hvort þessi tiltekni starfsmaður hafi verið búinn að sækja námskeiðið þegar þetta atvik kom upp.

„Þetta mál vekur upp spurningar um hvort það þurfi að ýta á eftir endurmenntun og tryggja að menn fari sem allra fyrst á þetta námskeið,“ segir Þórgnýr og bætir við að málið hafi verið tekið fyrir á starfsmannafundum í lauginni, þar sem farið hafi verið yfir hvernig hefði átt að bregðast við.

Þórgnýr segir að Reykjavíkurborg kæri ekki mál af þessu tagi til lögreglu fyrir hönd sundlaugargesta – það þurfi þeir að gera sjálfir. Borgin sé hins vegar boðin og búin til að veita allar upplýsingar ef eftir því sé sóst.

Mynd með færslu
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV
Morgunútvarpið
Þessi þáttur er í hlaðvarpi