Vissu snemma að Birnu hefði verið ráðinn bani

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Héraðsdómur Reykjaness hefur aflétt trúnaði sem var á gæsluvarðhaldsúrskurðum yfir Thomasi Möller Olsen, þrítugum Grænlendingi, sem ákærður er fyrir morðið á Birnu Brjánsdóttur. Úrskurðirnir sýna að umfangsmikil lögreglurannsókn á hvarfi hennar hófst strax laugardagskvöldið 14. janúar, sama dag og tilkynnt var um hvarf hennar. Og að lögreglan var þess fullviss, þegar hún fór fyrst fram á gæsluvarðhald yfir Olsen þann 19. janúar að manneskju hefði verið ráðinn bani í rauða Kia Rio-bílnum.

Fréttastofa Stöðvar 2 greindi fyrst frá gæsluvarðhaldsúrskurðunum í gærkvöld.  

Vildu ekki birta gæsluvarðhaldsúrskurðina

Þar kom fram að þekjufrumur bæði frá Birnu  og Olsen fundust á skóreim á skóm sem Birna átti en skórnir fundust á athafnasvæði Hafnarfjarðarhafnar 14. janúar. Og að myndabandsupptökur sýndu að Kia Rio bílinn sem Olsen var með á leigu, hefði verið í námunda við staðinn þar sem skórnir fundust.

Lögreglan krafðist þess á sínum tíma að gæsluvarðhaldsúrskurðirnir yrðu ekki birtir vegna rannsóknarhagsmuna en eftir að málið kom til héraðsdóms virðist þeirri leynd hafa verið aflétt.

Mikið blóð og fingrafar á ökuskírteini

Í gæsluvarðhaldsúrskurðinum sem kveðinn var upp í gær kemur nokkuð skýrt fram hvaða gögn það eru sem héraðssaksóknari byggir mál sitt á.  

Meðal annars að við rannsókn á rauða Kia Rio-bílnum, sem Olsen hafði til umráða, hafi fundist mikið blóð. Og DNA-rannsókn hafi leitt í ljós að það væri úr Birnu. 

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot  -  RÚV
Thomas Möller Olsen hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan um miðjan janúar en hann er ákærður fyrir morðið á Birnu Brjánsdóttur.

Þá hafi ökuskírteini Birnu fundist í rusli um borð í grænlenska togaranum Polar Nanoq með fingraförum Olsen og blóð úr Birnu fundist á úlpu hans. Rannsókn á fatnaði hans, sem búið hafi verið að þvo, hafi einnig sýnt að hann hefði komist í snertingu við nokkuð mikið magn blóðs.

Þá sýna myndskeið Olsen eyða nokkrum tíma í að þrífa aftursæti rauða bílsins - hann hafi sagst vera að þrífa upp ælu og ekki orðið var við neitt blóð. Sá framburður er að mati saksóknara í hróplegu ósamræmi við gögn málsins.

Saksóknari telur jafnframt að Olsen hafi ekki gefið trúverðugan framburð um hvað gerðist aðfaranótt laugardagsins 14. janúar og um morgunin né hvar hann hafi verið milli 7 og 11 þennan morgun.

Töldu sig vita snemma að Birnu hefði verið ráðin bani

Úrskurðirnir sýna einnig hversu snemma lögreglan vissi að Birnu hefði verið ráðinn bani.

Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu þann 19. janúar, fimm dögum eftir að Birna hvarf, kemur fram að rannsókn lögreglu hafi leitt í ljós að hvarf Birnu skýrist af því að henni hafi verið banað að morgni laugardagsins. Þá þyki rannsókn tæknideildar nú þegar gefa þá niðurstöðu að í rauða Kia Rio-bílnum, sem Olsen hafði á leigu, hafi manneskju verið ráðinn bani. 

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhann Bjarni Kolbeinsson  -  RÚV
Tveir skipverjar af Polar Nanoq voru handteknir um borð þegar skipið var komið inn fyrir íslenska lögsögu.

Þá kemur fram í þessum fyrsta úrskurði  að umfangsmikil lögreglurannsókn hafi strax hafist klukkan 19:01 laugardagskvöldið 14. janúar þegar ættingjar hennar höfðu samband.

Blaðamannafundur lögreglunnar var síðan haldin tveimur dögum seinna eða mánudaginn 16. janúar þar sem lögreglan óskaði eftir að ná tali af ökumanni rauða bílsins og birti myndskeið af Birnu úr eftirlitsmyndavélum.

Sagði tvær stelpur hafa komið upp í bílinn

Í fyrstu greinargerðinni kemur jafnframt fram að Olsen hafi tjáð lögreglu við yfirheyrslur að tvær stelpur hefðu komið upp í bílinn í miðbæ Reykjavíkur og fengið  far í Hafnarfjörð með honum og öðrum skipverja af Polar Nanoq. Skipverjarnir voru sammála um að þeir hefðu verið á veitingastöðum í miðborg Reykjavíkur þetta kvöld og voru á leiðinni aftur til skips.

Olsen kannaðist við það af myndum að önnur þeirra væri Birna en sagðist hafa látið stelpurnar út við hringtorg í Hafnarfirði, líklega í Vallarhverfinu, eftir að hafa skutlað vinnufélaga sínum.

Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Öðrum skipverjanum var sleppt 2. febrúar eftir að hafa gefið skýrslu hjá dómara við Héraðsdóm Reykjaness. Hann er ekki með réttarstöðu sakbornings.

Hinn skipverjinn sem sat um tíma í gæsluvarðhaldi vegna málsins staðfesti þennan framburð Olsen í fyrstu yfirheyrslum hjá lögreglu en dró það síðan tilbaka.  Hann gaf þá skýringu, samkvæmt úrskurði sem kveðinn var upp 2. febrúar, að Olsen hefði haldið þessu fram við sig. Hann myndi núna bara eftir að ein stúlka hefði komið inn í bílinn - hann hefði verið mjög ölvaður og myndi ekki eftir því að hafa rætt við stúlkuna.

Skipverjanum var sleppt þennan  sama dag og hefur ekki lengur réttarstöðu sakbornings. 

Ræddu við vitni á Grænlandi

Úrskurðirnir gefa einnig góða mynd af því hversu umfangsmikil rannsókn lögreglu var.  

Þann 16. febrúar segir í greinargerð lögreglustjórans að lögreglan hafi notið aðstoðar erlendra lögregluliða og vísindastofnana við rannsókn á miklum fjölda sýna og annars sem hafi verið aflað við rannsókn málsins og talið væri að gætu veitt þýðingarmiklar upplýsingar um málið. 

Í þessum sama úrskurði kemur fram að lögreglan hafi þurft að yfirheyra fjölda vitna, bæði þau sem hafi verið yfirheyrð en líka þau sem hafa ekki verið yfirheyrð áður. „Til dæmis að nefna liggi fyrir að yfirheyra fólk á Grænlandi og kanna með síma og fjarskiptasamband Olsen við það fólk að morgni 14. janúar og næstu daga eftir það eða þar til hann var handtekinn um miðjan dag miðvikudaginn 18. janúar.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Mál Birnu Brjánsdóttur snerti íslensku þjóðina og þúsundir komu saman í minningargöngu í miðbæ Reykjavíkur.
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV