Vill rannsókn á morðum 42 flóttamanna

20.03.2017 - 16:03
Erlent · Jemen
epa05854735 Yemenis inspect bodies of Somali migrants who were allegedly killed in a helicopter attack while traveling in a boat off the coast of Yemen, in the western Yemeni city of Hodeida, 17 March 2017. According to media reports at least 42 Somali
 Mynd: EPA
Yfirmaður UNHCR, Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna vill ítarlega rannsókn á morðum 42 flóttamanna undan strönd Jemens síðasta föstudag. Flóttafólkið, aðallega frá Sómalíu, var í bát sem talið er að hafi verið á leið frá hafnarborginni Hodeida í Jemen, til Súdan þegar þyrla réðst á bátinn. Tugir komust af og voru fluttir aftur til Hodeida. Sádí-Arabar og samstarfsríki þeirra í hernaðinum í Jemen segjast ekki hafa staðið fyrir þessari árás.

Þau minnast ekkert á þá kröfu stjórnvalda í Sómalíu um rannsókn á atburðinum, en segja að taki Sameinuðu þjóðirnar við stjórnartaumunum í Hodeida verði hægt að tryggja sendingar á hjálpargögnum til nauðstaddra í Jemen og binda enda á að borgin sé bækistöð vopnasmygls og mansals. Bandaríkjaher sendi frá sér yfirlýsingu fyrir helgi og sagðist heldur ekki hafa komið nærri árásinni á föstudag.

Bandaríkjamenn styðja einnig  Abd-Rabbu Mansour Hadi, forseta Jemens, og stjórn hans í baráttunni gegn uppreisnarmönnum Hútífylkingarinnar og bandamanna þeirra. Bandaríkjamenn hafa gert fjölda loftárása á Jemen að undanförnu, sem að sögn hafa beinst gegn al-Kaídasamtökunum og bækistöðvum þeirra. 

Samkvæmt mati Flóttamannahjálparinnar eru meira en 250 þúsund sómalskir flóttamenn í Jemen.