Vilja hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustu

21.04.2017 - 12:42
Mynd með færslu
Helsta ástæða metafgangs af vöru- og þjónustuviðskiptum hér á landi.  Mynd: RÚV
Þingmenn stjórnarandstöðu í fjárlaganefnd eru flestir fylgjandi hækkunum virðisaukaskatts á ferðaþjónustu. Ef ferðaþjónustan getur ekki starfað án skattaafsláttar þarf að endurskoða hvernig stjórnvöld styðja greinina, segir Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingar.

Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til 2022 er gert ráð fyrir að virðisaukaskattur verði hækkaður úr neðra skattþrepi upp í 22,5 prósent. Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, sagði í Morgunútvarpinu á Rás2 í morgun að þessi hækkun væri illa ígrunduð og skattaundanskot muni aukast. „Þar af leiðandi gæti þetta skaðað orðspor íslenskar ferðaþjónustu til lengri tíma. Það að tapa niður samkeppnisstöðu okkar og jafnvel draga úr gæðum þjónustunnar, ég óttast það að við munum ekki ná þessu upp, bara aldrei, vegna þess að samkeppni á þessum markaði er mjög hörð.“ 

Líði ekki að ferðaþjónustan búi við skattaafslátt

Nokkrir stjórnarþingmenn segjast vegna þessa ekki ætla að styðja fjármálaætlun ríkisstjórnarinnar. Þrír þingmenn stjórnarandstöðu í fjárlaganefnd eru fylgjandi hækkunum en segjast ekki styðja þær að óbreyttu. Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingar, segir skynsamlegt skref að færa ferðaþjónustuna yfir í almennt skattþrep eins og aðrar þjónustugreinar. „Ég held að atvinnulífið á Íslandi þoli ekki að svona stór grein búi við þennan skattaafslátt, þannig að ef hún getur ekki starfað án skattaafsláttar þá þurfum við að skoða betur rekstrarumhverfið í heild og hvernig við styðjum þessa atvinnugrein, mér finnst það vera augljóst mál,“ segir Oddný. 

Þörf á mótvægisaðgerðum

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, tekur undir það en þörf sé á mótvægisaðgerðum til að atvinnurekendur sitji við sama borð. „Ég hef haft þá skoðun að ferðaþjónustan eigi eins og aðrar greinar að vera í sama virðisaukaskattsþrepi en hins vegar hef ég líka sagt að við þurfum að horfa til þess að það sitja ekki allir við sama borð og þá horfi ég til landsbyggðarinnar þar sem að fyrirtæki sem eru að hasla sér völl og búa sér til heilsársbúsetu búa ekki við þriggja fasa rafmagn, þannig að við þurfum að huga að einhverjum mótvægisaðgerðum, að minnsta kosti, ef að þetta á að verða að veruleika,“ segir Bjarkey. 

Hækkunin jákvæð á þenslutímum

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, segist fylgjandi því að undanskilja ferðaþjónustuna skattaafsætti. Hækkunin sé jákvæð á þenslutímum en það eigi þó eftir að greina hvaða áhrif þessar hækkanir hafi. „Það er áhugavert að sjá hvert samspil þessara breytinga verður en við höfum ekki neinar greiningar á því eins og við höfum beðið um, hvaða áhrif hefur þetta á ferðaþjónustuna, hvaða áhrif hafa breytingar á ferðaþjónustuna á hagvöxtinn sem gert er gert ráð fyrir að sé undirstaða þess að fjármálastefnan og fjármálaáætlunin haldi,“ segir Björn.