Víðast hvar vel heppnaðir skíðapáskar

18.04.2017 - 16:54
Fólk á skíðum í Bláfjöllum.
 Mynd: RÚV
Góð aðsókn var að flestum skíðasvæðum landsins um páska og veðrið var yfirleitt gott. Aðsóknin í Bláfjöllum og Skálafelli olli þó vonbrigðum og á Dalvík dró snjóleysi úr aðsókn.

„Þetta tókst stórkostlega,“ sagði Egill Rögnvaldsson, umsjónarmaður skíðasvæðisins á Skarðsdal við Siglufjörð. Þar var opið 8 daga samfellt í páskafríinu og um 3600 gestir samtals. „Það komu 650 manns á föstudaginn langa og þetta voru um og yfir 500 manns hina dagana,“ segir Egill.

Nágrannar þeirra á Dalvík eru ekki eins ánægðir með aðsóknina yfir páskadagana. Kristján Þorvaldsson segir að snjóleysi hafi trúlega dregið úr aðsókninni. Þar bætti lítið á snjóinn fyrir páska eins og víðast hvar annarsstaðar. „Það voru um 6-800 manns hjá okkur, sem er ekki hálfdrættingur miðað við eðlilegt tíðarfar,“ sagði Kristján.

Guðmundur Jónsson, umsjónarmaður skiðasvæðisins í Hlíðarfjalli segir allt hafa tekist ljómandi vel þar. „Það var jöfn og þétt aðsókn, tæplega 2000 manns á dag, sem telst nokkuð gott á páskum. Fjórðu stærstu páskar sögunnar hjá okkur,“ sagði hann. Hann segir þó að margir hafi farið fyrr heim vegna veðurspárinnar á annan í páskum.

Ómar Skarphéðinsson, á skíðasvæðnu í Oddsskarði segist hafa orðið fyrir vonbrigðum með föstudaginn langa og þá hefði skírdagur mátt vera betri. „Laugardagurinn var ljómandi góður, 7-800 manns, og um 500 voru á páskadag. Þannig að við erum þokkalega sátt,“ sagði Ómar. 

„Þetta var rosa fínt,“ sagði Agnar Sverrisson, umsjónarmaður á skíðasvæði Seyðfirðinga og Héraðsbúa á Stafdal. Besta veðrið hafi verið á annan í páskum, en aðsóknin mest á föstudaginn langa. „Ágætis dagar,“ sagði Agnar sem var ekki búinn að taka saman fjölda gesta, þegar fréttamaður ræddi við hann síðdegis.   

Viggó Jónsson, umsjónarmaður skíðasvæðisins í Tindastóli er mjög ánægður hvernig til tókst þar í páskafríinu. „Frábært veður á páskadag, eins og á póstkorti, blanka logn og sólskin,“ sagði hann. Þá hafi 350-400 manns verið á skíðum, en í heildina hafi fjöldi gesta verið á bilinu 1000 til 1500. Það var lokaði í Tindastóli á annan í páskum vegna hvassviðris, en opið alla aðra daga.

„Þetta var glimrandi gott og gekk eins og í sögu,“ sagði Hlynur Kristinsson, umsjónarmaður á skíðasvæðum Ísfirðinga. Hann segir veðrið hafa verið gott og aðsóknin sömuleiðis. „Laugardagurinn var besti dagurinn, þá voru um 1200 manns, og á páskadag voru um 1000 á skíðum hérna.“

Aðsóknin í Bláfjöllum og Skálafelli olli vonbrigðum að sögn Einars Bjarnasonar, framkvæmdastjóra í Bláfjöllum. „Samtals voru rúmlega 6000 í Bláfjöllum og 1100 í Skálafelli, sem er lítil traffík,“ sagði hann. Eðlilegur dagur á páskum væri 3500-4500 manns. Það voru aldrei biðraðir, fólk dreifðist einhvernveginn um svæðið og þetta voru skrýtnir og sérstakir páskar. Það var mjög gott veður á páskadag, þá vor um 2400 manns á skíðum, helmingi minna en hefði átt að vera.“

Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV