Víða hálka á vegum

12.04.2017 - 08:11
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hálka er á vegum víða á landinu og snjóþekja víða á Vestfjörðum og Norðurlandi. Starfsmenn Vegagerðarinnar vinna að því að hreinsa vegi þar sem þess er þörf. Ófært er á Hrafneyrarheiði, Dynjandisheiði og Öxi.

Staðan á vegum landsins var þessi, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni um klukkan átta:

„Hálkublettir eru á Hellisheiði og á Reynisfjalli en annars eru vegir greiðfærir á Suðurlandi. 

Á Vesturlandi er hálka á Holtavörðuheiði og Fróðárheiði en hálkublettir m.a. á Bröttubrekku og Vatnaleið.

Víða er nokkur hálka eða snjóþekja á Vestfjörðum. Verið er að moka Steingrímsfjarðarheiði og eins norður í Árneshrepp.   -  Hrafnseyrarheiði og Dynjandisheiði eru ófærar. 

Verið er að hreinsa vegi á Norðurlandi þar sem víða er snjóþekja eftir nóttina. Þæfingsfærð er á Þverárfjalli í augnablikið. 

Hálka eða snjóþekja er á flestum vegum á Austurlandi og verið að hreinsa. Öxi er ófær en greiðfært með ströndinni suður um.“

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV