„Við þurfum að slá vopnin úr þeirra höndum“

17.07.2017 - 15:09
„Já, við getum unnið Frakkland. Við þurfum að hitta á okkar besta dag og vonast til að slá vopnin úr þeirra höndum,“ sagði landsliðsþjálfarinn Freyr Alexandersson um möguleika Íslands gegn Frakklandi í fyrsta leik C-riðils á EM í Hollandi þegar RÚV heimsótti hópinn á landsliðshótelið í Ermelo í gær.

Freyr segir að trúin sé til staðar í hópnum. „Við höfum trú á því að við getum fundið lausnir á þeirra leik og náð okkar besta fram.“

Sást hvað þetta virkaði vel í Annecy í fyrra

Freyr Alexandersson var í starfsliði íslenska karlalandsliðsins á EM í Frakklandi í fyrra og kunni vel að meta aðbúnað liðsins í Annecy. Bækistöðvar liðsins nú eru mjög sambærilegar.

„Það skiptir mjög miklu máli að vera í fallegu og rólegu umhverfi. Ég held að reynsla okkar í Annecy í fyrra hafi sýnt hvað þetta hjálpaði mikið að ná í orku og eiga einhverja svona orkustöð í rauninni,“ sagði Freyr og bætir við. „Manni líður mjög vel á þessu hóteli og í þessu umhverfi og svo er ekki verra að starfsfólkið hérna er tilbúið að gera allt fyrir okkur.“

Viðtalið við Frey í heild má sjá í spilaranum hér að ofan.

Mynd með færslu
Haukur Harðarson
íþróttafréttamaður