„Við erum öll meira og minna að verða gelgjur“

Bókmenntir
 · 
heimspeki
 · 
Lestin
 · 
samtíminn
 · 
Menningarefni

„Við erum öll meira og minna að verða gelgjur“

Bókmenntir
 · 
heimspeki
 · 
Lestin
 · 
samtíminn
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
05.05.2017 - 14:33.Anna Gyða Sigurgísladóttir.Lestin
„Ég vil reyna að vera móralslaus og ekki dæma nútímann sem góðan eða slæman. Ég held við séum í siðferðisbólgu, það eru siðferðismiðar hengdir á hluti sem þurfa ekki á því að halda,“ segir skáldið, pistlahöfundurinn og uppistandarinn Bergur Ebbi Benediktsson sem gaf fyrir helgi út bókina Stofuhiti – ritgerð um samtímann.

Í bókinni má finna beitta og knýjandi krufningu á samtímanum þar sem rýnt er í samfélagsmiðla, sítengingu, hryðjuverk, gagnaleka og margt annað sem hefur gríðarlega áhrif á sjálfsmynd okkar, hvort sem við áttum okkur á því eða ekki. Hann skrifar af snerpu og eldmóði um veruleika líðandi stundar og það sem á okkur brennur: Hver erum við og hvert ætlum við?

Leitin að perlunni

Bergir Ebbi segist trúa því að einhvers staðar í undirdjúpunum liggi perla og þegar hann finni hana hverfi úr huga hans allur efi. Bókin sé svo einhvers konar leit að þessari perlu. En hvaða perla er það?

„Ég get ekki afneitað því að ég sé afstæðishyggjumaður en ég held að innst inni – og nú get ég aðeins talað fyrir sjálfan mig – væri ekki tilgangur í þessu, fólk myndi ekki nenna að vakna á morgnana og lifa, ef það tryði samt ekki á einn sannleika sem leynist einhvers staðar,“ segir Bergur Ebbi í samtali við Lestina. Hann bætir við að afstæðishyggja hans felist kannski fyrst í fremst í eigin óvissu um hvort hann finni þennan sannleika. „Ég held að fólki hafi oft liðið svona með samtímann, fundist hann ruglingslegur. Þá langar mann stundum að gefast alveg upp. Ég held samt að við fáum mikið út úr því að reyna að flokka og greina hluti og skilja kannski helminginn, eða rétt rúmlega það. Ég er að leggja upp í þessa leit, svona eins og maður eigi allavega að reyna að kafa eftir perlunni.“

Allir tengdir inn á sama tíðaranda

Í huga Bergs Ebba er alþjóðavæðingin sem internetið hefur leitt af sér gríðarlega sterkt afl sem hefur þau áhrif að við séum öll að mörgu leyti í svipuðum reynsluheimi. „Mér finnst ótrúlegt hvað fólk á svipuðum aldri er að upplifa þessa upplýsingatæknibyltingu, og hvernig hún breytir sjálfsmynd fólks, á svipaðan hátt. Hvort sem það býr á Íslandi eða Egyptalandi eða Suður-Ameríku.“

Bergur vill reyndar einnig meina að við séum að nálgast þann stað í sögunni að kynslóðir skipti æ minna máli, enginn fái til dæmis afslátt af skoðunum sínum vegna aldurs. „Þó þú sért orðinn háaldraður og skrifir eitthvað sem er ekki sem er ekki móðins á facebook, þá færðu bara að heyra það, því það eru allir tengdir inn á sama tíðaranda. Fyrir nokkrum kynslóðum síðan var þetta ekki svona, þá voru mismunandi kynslóðir að njóta mjög ólíkra menningarafurða,“ segir Bergur og bætir við: „Við erum öll meira og minna að verða gelgjur. Instagram var að uppfærast um daginn og verða meira eins og Snapchat og það eru allir að tala um það, líka sextugt fólk í heitu pottunum.“

Einn meginþráðurinn í bókinn snýst um það sem Bergur Ebbi kallar stemmningu eða filter; Hvernig samtíminn leitast við búa til umgjörð eða upplifun utan um alla skapaða hluti, hjúp utan um það sem hingað til hefur talist vera raunverulegt, eða kjarni. „Filter er það sem við setjum yfir myndirnar sem við deilum, þær fá ákveðinn hjúp, við náum að láta nútímann fá nostalgíublæ strax.“

Bergur Ebbi veltir því hins vegar upp hvort að filterinn sé víðar. „Hvort að hugsanir okkar og skoðanir og fleira í hegðun okkar fari í gegnum filter. Og filterinn er í eðli sínu eitthvað sem liggur utan á, hjúpur, froða, ómerkilegt. En ég er farinn að hallast að því að í nútímanum sé filterinn og stemmningin orðin einhvers konar kjarni. Þá þarf maður að snúa öllu við, ef að umbúðirnar eru farnar að vera merkingin.“

„Stemmnings“myndband fyrir Stofuhita sem sýnt var á útgáfuhófi bókarinnar í Bíó Paradís á fimmtudaginn.

Bergur Ebbi segir að í menningarfræðum og póstmódernisma hafi þó svipaðar hugmyndir verið uppi í nokkra áratugi. „Að ferlið og undirbúningurinn sé hluti af verkinu, það tröllríður öllu í þessum hærri listum. Það er ekkert bara málverk, heldur var kannski listamaðurinn að hella yfir sig mæjonesi og hrækja framan í mömmu sínu meðan hann málaði verkið, það er partur af verkinu, stemmningin sem er búin til í kringum það.“

Núna sé hins vegar almenningur farinn að temja sér svipaða hætti í daglegu lífi, það sé búin til heilmikil stemmning í kringum „kjarnann“. „Ef það er fermingarveisla, þá eru settar inn myndir á samfélagsmiðla þegar boðskortin eru klár, það eru settar myndir af því þegar blöðrurnar eru hengdar upp og öllu ferlinu. Þetta hefur verið afskrifað sem hégómi, en ef þú pælir í því í þessu samhengi er kannski meira vit og dýpt í þessu.“ 

Meðaltal öfga er stofuhiti

Titill bókarinnar, Stofuhiti, kallast á við nokkur þemu í bókinni. „Eitt af þeim er þessi stóra allegoría að nútímamaðurinn sé eins og köttur inn í stofu sem situr í gluggakistu, svolítið hrokafullur eins og manni finnst kettir alltaf vera á svipinn, og horfir út um gluggann á umheiminn, fullur af vanþóknun og yfir allt hafin. Þetta twitter-viðmót er svolítið þannig.“

Annað sem tengist stofuhita er að þegar allt blandast saman verður meðaltalið alltaf mollulegur stofuhiti, segir Bergur Ebbi. „Þessar miklu öfgar, brjálæðsilega jolly status um eitthvað ómerkilegt, við eitthvað háalvarlegt, þá er niðurstaðan bara stofuhiti. Enda ert þú að lesa þetta við 18-21 gráðu, í fullkomnum kjöraðstæðum.“

Mynd með færslu
 Mynd: Magnús Leifsson/myndband
Bergur Ebbi við kjöraðstæður.

Bergur segist hafa reynt að greina samtímann móralslaust og telur nútímann vera í siðferðisbólgu, það séu hengdir siðferðismiðar á alla mögulega hluti. En skyldi hann hafa fundið perlurnar sem hann kafaði eftir? „Ég komst að fleiri niðurstöðum en ég bjóst við. Þetta var náttúrulega ferð án fyrirheits. Sumt var jákvæðara en ég bjóst við, þegar ég byrjaði að skrifa var þyngri tónn í þessu. Ég var dottinn í eitthvað fánýti og að vorkenna mér, að það væri rosa mikið álag fyrir mig að upplifa þessa tíma. Ég náði að rísa upp úr því. Ég myndi ekki segja að það sé bjartsýnn tónn, en það er samt einhver von.“

Anna Gyða Sigurgísladóttir og Jóhannes Ólafsson ræddu við Berg Ebba Benediktsson í Lestinni. Hægt er að hlusta á viðtalið í spilaranum efst en þar má einnig heyra Berg Ebba lesa upp úr bókinni.