Var undir áhrifum áfengis og vímuefna

20.03.2017 - 02:20
epa05855610 Police move into position at Orly airport, near Paris, France, 18 March, 2017. According to news reports a person has been shot by Operation Sentinelle anti-terror patrol soldiers at Orly Airport after trying to snatch a soldier's weapon.
 Mynd: EPA
Maðurinn sem skotinn var til bana af öryggisvörðum á Orly-flugvelli í París á föstudag var undir áhrifum fíkniefna og áfengis. Guardian hefur þetta eftir heimildum sínum innan úr franska dómskerfinu.

Samkvæmt eiturefnamælingum mældist áfengismagn í blóði mannsins 0,93 grömm á hvern lítra af blóði. Þá mældist kannabis og kókaín í blóðinu. Breska dagblaðið Guardian hefur eftir föður mannsins að hann hafi ekki verið öfgasinnaður. „Sonur minn var ekki hryðjuverkamaður. Hann bað aldrei, og var drykkjumaður,“ sagði hann í útvarpsviðtali í Frakklandi.

Maðurinn náði valdi á hermanni á vakt á Orly-flugvelli á laugardagsmorgun, hélt byssu að höfði hans og tók af honum riffil. Öryggisverðir náðu að fella hann áður en hann gat gert nokkrum mein. Fyrr um morguninn hafði hann skotið á lögregluþjón í norðanverðri Parísarborg þar sem hann var stöðvaður á stolnum bíl. Rannsakendur beina nú sjónum sínum að ástæðu árásarinnar.

Mikill öryggisviðbúnaður er í París eftir hryðjuverkaárásir undanfarinna mánuða í Frakklandi. Stutt er í forsetakosningar og því hefur neyðarástandi, sem lýst var yfir eftir hryðjuverkin í París 2015, verið framlengt fram yfir þær.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV