Var grunaður um að ætla að fella lögreglumenn

20.04.2017 - 22:24
epaselect epa05918248 French Police officers react after a shooting in which two police officer were killed along with their attacker and another police officer wounded in a terror attack near the Champs Elysees in Paris, France, 20 April 2017. Three
 Mynd: EPA
Maðurinn sem skaut einn lögreglumann til bana og særði tvo til viðbótar á Champs Elysees breiðgötunni í París í kvöld hafði verið undir eftirliti hryðjuverkadeildar lögreglu vegna gruns um að hann áformaði að verða lögreglumönnum að bana. Árásarmaðurinn var felldur og húsleit gerð í híbýlum hans í úthverfi borgarinnar í kvöld. Hryðjuverkadeildin hefur tekið við rannsókn málsins og Íslamska ríkið hefur lýst ábyrgð á hendur sér. Tveir forsetaframbjóðendur hafa aflýst síðustu framboðsfundum sínum.

Þegar árásin var gerð var fjöldi fólks á ferð um Champs Elysees, eins og jafnan er raunin á flestum stundum sólarhringsins. Götunni var lokað þegar í stað og jarðlestastöðvum í grenndinni líka.  Tugir lögreglubíla voru sendir á staðinn. 
Reuters fréttastofan hefur eftir sjónarvotti að árásarmaðurinn hafi stigið út úr bíl og hafið skothríð úr vélbyssu en verið felldur sjálfur skömmu síðar.

Á ellefta tímanum í kvöld, að íslenskum tíma,  barst Reuters-fréttastofunni yfirlýsing frá Amaq; fjölmiðla- og áróðursapparati hryðjuverkasamtakanna sem kenna sig við Íslamskt ríki, þar sem samtökin lýsa sig ábyrg fyrir árásinni. 

Hæsta viðbúnaðarstig er í Frakklandi vegna yfirvofandi hryðjuverka og eftirlit hefur enn verið aukið vegna forsetakosninganna á sunnudag. Fjöldi vopnaðra lögreglumanna var því á ferli á Champs Elysees þegar árásarmaðurinn lét til skarar skríða. Kosningabaráttu fyrir fyrri umferð forsetakosninganna átti að ljúka annað kvöld. Frambjóðendurnir Marine Le Pen og Francois Fillon aflýstu bæði lokafundum sínum vegna árásarinnar. 

Fyrir tveimur dögum handtók franska lögreglan tvo menn í Marseille í suðurhluta Frakklands. Talið er að þeir hafi verið að undirbúa hryðjuverk í landinu í aðdraganda forsetakosninganna á sunnudaginn kemur. Í fórum þeirra fundust vopn og sprengiefni. 
Frakkland hefur verið á hæsta viðbúnaðarstigi vegna yfirvofandi hryðjuverka frá því að slíkar árásir voru gerðar árið 2015. Yfir 230 hafa látið lífið í hryðjuverkaárásum í landinu síðan.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Mynd með færslu
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV