United Silicon fær frest

21.04.2017 - 12:31
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
United Silicon hefur fengið frest til miðnættis á mánudag til að skila athugasemdum við áform Umhverfisstofnunar um að stöðva starfsemi verksmiðjunnar í Helguvík. Talsmaður fyrirtækisins segir að verksmiðjan verði ekki gangsett á ný fyrr en lausn sé fundin á lyktarmengun. Hann kannast ekki við að formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur hafi óskað eftir því að skoða vinnuaðstæður í verksmiðjunni.

Umhverfisstofnun sendi United Silicon bréf 18. apríl um að fyrirtækinu sé óheimilt að gangsetja ofn verksmiðjunnar í Helguvík á ný nema í samráði við stofnunina. Verksmiðjan er óstarfhæf eftir bruna sem þar varð á þriðjudaginn. Umhverfisstofnun vill að stöðvunin vari lengur eða þar til skýrari upplýsingar liggja fyrir um orsök lyktarmengunar, sem fjöldi íbúa í nágrenninu hefur kvartað undan, og mögulegar úrbætur.

Verður ekki gangsett aftur fyrr en lausnin er fundin

Kristleifur Andrésson, stjórnandi öryggis- og umhverfismála hjá United Silicon, segir að nú vinni sérfræðingar fyrirtækisins að lausn á lyktarmenguninni í samstarfi við norska ráðgjafafyrirtækið Multiconsult og framleiðendur búnaðar.

„Við ætlum ekki að setja í gang fyrr en við höfum eitthvað sem við getum treyst á að hjálpi okkur að lágmarka þessa lykt,“ segir Kristleifur í samtali við fréttastofu. Hann segir að þetta þýði að verksmiðjan verði ekki heldur sett í gang til prófunar. „Þetta er mjög viðamikil vinna sem við vonum að muni hjálpa okkur til þess að koma rekstrinum í það horf að við getum unnið í sátt við samfélagið.“

Umhverfisstofnun gaf United Silicon frest til hádegis í dag til að gera athugasemdir við áform sín um að stöðva starfsemi verksmiðjunnar. Samkvæmt upplýsingum frá Umhverfisstofnun hefur fresturinn verið framlengdur til miðnættis á mánudag, til að verða við ósk United Silicon um fund með sérfræðingum stofnunarinnar. Sá fundur er áformaður síðdegis. 

Kannast ekki við fullyrðingar verkalýðsforingjans

Vinnueftirlitið rannsakar nú heilsufar starfsmanna verksmiðjunnar í Helguvík, United Silicon hafi ekki sinnt öllum kröfum um úrbætur og til skoðunar sé að beita fyrirtækið dagsektum. Kristján Gunnarsson, formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis, sagði í fréttum RÚV á miðvikudaginn að allmargir starfsmenn verksmiðjunnar hafi leitað til sambandsins og kvartað yfir öryggismálum. Þá hafi hann ekki fengið leyfi til að skoða vinnuaðstæður. „Við höfum ekki fengið beiðni frá honum að mér vitandi,“ segir Kristleifur. „Ég hef spurt hér innanhúss og það kannast enginn við að hann hafi beðið um það.“

Ljóst er að fyrirtækið tapar háum fjárhæðum á hverjum degi sökum framleiðslustoppsins. Kristleifur vill ekki útlista tapið en segir að það nemi verulegum fjárhæðum. „Það liggur auðvitað á að það sé unnið hratt en við ætlum ekki að flýta okkur meira en svo að við þurfum að vera með einhverjar lausnir sem hjálpa okkur í þessum vandamálum og það er bara ekki dagsett,“ segir Kristleifur. „Það verður bara að taka þann tíma sem þarf.“