Undantekningin ný kvöldsaga Rásar 1

Skáldsagan Undantekingin eftir Auði Övu Ólafsdóttur er ný kvöldsaga á Rás 1. Auður hefur lestur sögunnar í kvöld. Að því tilefni var tekið ýtarlegt viðtal við Auði um bókina sem birt verður hér á vefnum næstu dögun en gripið var niður í viðtalið og lestur Auðar Övu í Víðsjá í dag. Innslagið má heyra hér fyrir ofan.

Undantekningin - de arte poetica kom út árið 2012 og var vel tekið auk þess sem bókin hefur verið þýdd á fjölmörg tungumál. Bókin er fjórða og næst nýjasta skáldsaga Auðar Övu og af mörgum talin ein af allra forvitnilegustu skáldsögum síðustu ára hér á landi.

Um áramótin breytist allt

Bókin segir frá Maríu, tveggja barna móður sem stendur frammi fyrir því að eiginmaður hennar til 11 ára fer frá henni rétt fyrir áramót á sjálfu gamlárskvöldi, á meðan flugeldar springa á himninum. Svartur hrafn breiðir út vængi yfir snjóhvítri grund og kampavínsflaska umbreytist í byssu. 

Eiginmaðurinn heitir Flóki og yfirgefur hina fögru Maríu og börn þeirra tvö til að flytja inn til samstarfsmanns síns Flóka Karls, en báðir eru Flókarnir auðvitað sérfræðingar í óreiðukenningunni. 

Minningar, svik og skáldskapurinn

Undantekningin fjallar um sambúðarslit og viðbrögð okkar við svikum, hvernig við endurmetum stöðuna þegar allt virðist ætla að gliðna í sundur. Jafnframt því er bókin eins konar rannsókn inn í eðli og heim skáldskaparins þó að sú rannsókn sé aldrei upphafin heldur klædd í hversdagslegan búning og líf aðalpersónunnar.

Það eru ekki síst samskipti Maríu við nágrannakonuna Perlu sem býr í kjallaranum sem nýtast höfundi til að kanna heim skáldskaparins. Perla sem er dvergur og starfar sem rithöfundur og hjónabandsráðgjafi. Hún hefur svör við öllu, þó þau kunni sum að vera einkennileg, og Perla hlýtur að teljast ein af eftirminnilegri bókmenntapersónum síðustu ára hér á landi. 

Fasti í bókmenntalífinu

Það er engum blöðum um það að fletta að kvöldsagan á Rás 1 er fyrir löngu orðin fasti í íslensku bókmenntalífi. Hún er frábær og þægileg leið til að láta lesa fyrir sig. Kvöldsagan hljómar síðasta hálftímann fyrir 10 fréttir á hverju virku kvöldi og rétt að benda hlustendum á að fylgjast með frá byrjun í þessari frábæru og margbrotnu sögu Auðar Övu.

Í næstu viku birtist hér á vefnum ýtarlegt sjónvarpsviðtal við Auði Övu um bókina og þann 21. maí verður á dagskrá þátturinn Ómögulegt að gera ráð fyrir öllum möguleikum um bókina

Lestur Auðar Övu á Undantekningunni hefst í kvöld kl. 21:30.  

Mynd með færslu
Guðni Tómasson
dagskrárgerðarmaður
Víðsjá
Þessi þáttur er í hlaðvarpi