Umfangsmesta leit sem um getur á morgun

20.01.2017 - 23:08
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Björgunarsveitir undirbúa nú langumfangsmestu leit sem um getur í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Leitarsvæið er stórt, frá Borgarnesi að Selfossi og svo er einnig leitað á Reykjanesskaga. Björgunarsveitunum bíða á þriðja þúsund leitarverkefni þegar birtir í fyrramálið. Þorsteinn G. Gunnarsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar segir að það sé stór dagur framundan.

Öllu verði tjaldað til á morgun. „Við eigum von á verulegum fjölda björgunarsveitarmanna á öllu landinu. Það verður lögð áhersla á það að leita fyrst og fremst eftir vegum og vegaslóðum á þessu svæði og út frá þeim. Við leitum á bílum, gangandi, á fjórhjólum, sexhjólum, með drónum og nýtum allan okkar flota. Einstaka svæði verða fínleituð og það eru þá helstu svæði þar sem hafa borist einhverjar ábendingar til lögreglu frá almenningi.“

„Þetta er með allra stærstu aðgerðum. Nú þegar hafa milli 290 og 300 björgunarsveitarmenn komið að þessari aðgerð á einhverjum tíma. Mest hafa þeir verið 130 sem hafa verið úti í einu og við eigum von á því að núna um helgins verði töluvert fleiri en það. Svona til samanburðar voru í heildina rúmlega 400 manns sem tóku þátt í leitinni að rjúpnaskyttunni fyrir austan og þá var nánast allt landið komið undir líka og við eigum von á því að þetta veðri með stærri leitum.“ segir Þorsteinn.

Mikilvægt sé að gefa fagfólki vinnufrið. „Það er mjög mikilvægt að okkar fólk sem er fagfólk, bæði á sviði leitar og eins líka að vernda vettvang og umgangast hluti sem finnast og gæti hugsanlega tengst málinu, að þetta fólk fái að vinna í friði.  Lögreglan lýsti því yfir í morgun og hvatti fólk tl þess að taka ekki þátt eða reyna að vera að leita á þessum svæði á meðan björgunarsveitarfólkið er að leita og það eru ástæður fyrir því sem eru fyrst og fremst varðandi leitaraðferðir og kunnáttu þessa fólks bæði í leitarfræðunum og að umgangast vettvang.“

Mynd með færslu
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV