Tyrkland á tímamótum

20.03.2017 - 08:50
Mynd með færslu
 Mynd: EPA
Samband Tyrklands og ríka Evrópu hefur versnað ótrúlega hratt síðustu daga og vikur. Leiðtogar Tyrklands hafa undanfarið sakað Evrópubúa um fasisma og þjóðarmorð á múslimum, eftir að ekki varð af kosningafundum í nokkrum Evrópuríkjum. Stjórnmálamenn og evrópskar stofnanir hafa á móti varað við vaxandi alræðistilburðum Erdogans forseta. Hann brjóti gegn mannréttindum, ofsæki blaðamenn og minnihlutahópa og grafi undan lýðræði í Tyrklandi.

Í næsta mánuði verður haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um nýja stjórnarskrá sem myndi breyta Tyrklandi úr þingræðisríki í forsetaræði á borð við það sem tíðkast í Bandaríkjunum. Um hvað snúast breytingarnar og þær hörðu deilur sem hafa verið milli tyrkneskra og evrópskra stjórnmálamanna síðustu daga?

Hvað breytist með nýrri stjórnarskrá

Tyrkland er þingræðisríkis. Embætti forseta hefur fyrst og fremst verið táknrænt samkvæmt stjórnarskránni. Það hefur þó verið að breytast eftir að Recep Tayyip Erdogan varð forseti árið 2014. Samkvæmt tillögum að nýrri stjórnarskrá yrði forsetaembættið mun valdameira, auk þess sem forsetinn gæti tilheyrt stjórnmálaflokki. Erdogan þurfti að hætta í AKP-flokknum, sem hann hafði stýrt árum saman, þegar hann varð forseti.

Samkvæmt tillögunum yrði forseti Tyrklands æðsti yfirmaður framkvæmdavaldsins og gæti skipað einn eða fleiri varaforseta. Hann myndi skipa ráðherra í ríkisstjórn Tyrklands og hafa vald til að svipta þá embætti. Forsetinn gæti einnig sent þingið heim, sýnist honum svo. Embætti forsætisráðherra yrði lagt niður, en það hefur verið valdamesta embætti Tyrklands fram til þessa.

Þá verður fólk ekki lengur kjörgengt í þingkosningum við 25 ára aldur, heldur við 18 ára aldur.

Styrkari stjórn eða tilræði við lýðræði í landinu

Binali Yildirim, forsætisráðherra Tyrklands, hefur sagt að breytingarnar miði að því að styrkja stjórn landsins. Með þeim verði komið í veg fyrir átök milli mismunandi greina stjórnarinnar. Gagnrýnendur fyrirhugaðra breytinga segja hins vegar að með þeim sé verið að veikja þingræði í landinu. Þá sé dregið úr eftirliti með framkvæmdavaldinu og úr þeim skorðum sem valdi einstaka ráðamanna eru settar. Afleiðingin gæti orðið alræði eins manns í Tyrklandi.

Feneyjanefndin, ráðgjafarnefnd Evrópuráðsins um stjórnskipunarmál, hefur komist að þeirri niðurstöðu að fyrirhugaðar breytingar á stjórnarskrá Tyrklands grafi undan grundvallarreglum lýðræðis og réttarríkis. Þá telur nefndin að aðgerðir gegn fjölmiðlum og blaðamönnum síðustu mánuði brjóti gegn alþjóðalögum.

Herdís Kjerúlf Þorgeirsdóttir, varaforseti Feneyjanefndarinnar, sagði á Morgunvaktinni á Rás 1 á fimmtudag að Erdogan forseti hafi nú náð þvílíkum tökum á stjórnkerfinu að hugsanlega verði ekki aftur snúið. Ef þjóðaratkvæðagreiðslan fer á þann veg að Erdogan fái stóraukin völd sé það náðarhögg fyrir lýðræðið í landinu og réttarríkið.

Stjórnarskrá Tyrklands hefur verið í gildi frá árinu 1982. Frumvarp að nýrri stjórnarskrá var samþykkt á tyrkneska þinginu í janúar, eftir mikil átök, hávaðarifrildi og slagsmál. Þjóðaratkvæðagreiðsla um nýju stjórnarskrána fer fram 16. apríl.

Mjótt á munum

Skoðanakannanir í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar eru misvísandi. Sumar sýna allt að 60% stuðning við stjórnarskrárbreytingarnar. Aðrar að hátt í 60% hyggist hafna fyrirhuguðum breytingum.

Tillögur um stjórnarskrárbreytingar eru lagðar fram af þingmönnum AKP, sem Erdogan forseti var í áður en hann tók við embætti. Tillögur njóta stuðnings MHP, sem er hægrisinnaður flokkur þjóðernissinna. Repúblikanar og HDP eru hins vegar andvígir fyrirhuguðum breytingum. Repúblikanaflokkurinn er flokkur jafnaðarmanna – sósíaldemókrata. HDP, eða Lýðræðisflokkur fólksins, er vinstrisinnaður og femínískur flokkur sem nýtur mikils stuðnings meðal minnihluta Kúrda.

Tveir leiðtogar flokksins og tíu aðrir þingmenn hans voru handteknir í haust, skaðir um stuðning við skæruliða PKK, sem berjast fyrir sjálfstæðu ríki Kúrda.

Blómasali á Taksim-torgi í Istanbúl. Í bakgrunni er mynd af Erdogan forseta þar sem fólk er hvatt til að samþykkja nýja stjórnarskrá í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Blómasali á Taksim-torgi í Istanbúl. Í bakgrunni er mynd af Erdogan forseta þar sem fólk er hvatt til að samþykkja nýja stjórnarskrá í þjóðaratkvæðagreiðslu.  Mynd: EPA

Kosningabaráttan nær til Evrópu – og veldur hörðum deilum

Í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar hafa tyrkneskir stjórnmálamenn leitast við að halda kosningafundi í nokkrum löndum Evrópu. Fjöldi tyrkneskra innflytjenda í löndum á borð við Þýskaland og Holland, er með kosningarétt í Tyrklandi. Í Þýskalandi eru 1,4 milljónir manna sem eru með kosningarétt í Tyrkland; í Frakklandi 318 þúsund; í Hollandi 238 þúsund; 104 þúsund í Austurríki, 93 þúsund í Sviss; 37 þúsund í Svíþjóð og 33 þúsund í Danmörku.

Yfirvöld í evrópskum ríkjum og borgum hafa sum hver komið í veg fyrir fundina. Dómsmálaráðherra Tyrklands hugðist til að mynda halda fjöldafundi í nokkrum þýskum borgum í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar en fékk ekki leyfi fyrir fundunum. Stjórnvöld í Austurríki, Sviss og Hollandi hafa einnig komið í veg fyrir fjöldafundi í tengslum við þjóðaratkvæðagreiðsluna. Hollendingar meinuðu þannig Mevlut Cavusoglu, utanríkisráðherra Tyrklands, að koma til landsins.

Mótmæli við ræðisskrifstofu Hollands í Istanbúl, 12. mars 2017.
Mótmæli við ræðisskrifstofu Hollands í Istanbúl, 12. mars 2017.  Mynd: EPA

Cavusoglu hélt hins vegar fund í Metz í Frakklandi. Þá hefur annar tyrkneskur stjórnmálamaður haldið nokkra fjöldafundi í Stokkhólmi í Svíþjóð. Lars Lökke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, sagði fyrir nokkrum dögum að hann vilji fresta opinberri heimsókn starfsbróður síns frá Tyrklandi vegna aukinnar spennu í samskiptum Tyrklands við hollensk stjórnvöld. Binali Yildirim, forsætisráðherra Tyrklands átti að koma til Danmerkur 20. mars. Ekki er ljóst hvort Yildirim hugðist halda einhverja fjöldafundi í Danmörku.

Yfirvöld í Þýskalandi hafa þó þegar gefið út að hægt verði að halda kjörfundi í Þýskalandi vegna þjóðaratkvæðagreiðslunnar, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Fólk sem býr í Þýskalandi en er með kosningarétt í Tyrklandi, ætti því að geta kosið í Þýskalandi.

Segja Evrópuríki „fasísk“ og vara við trúarbragðastríði

Tyrkneskir ráðamenn hafa síðustu daga farið ófögrum orðum um evrópska starfsbræður sína í þeim löndum þar sem ekki fékkst leyfi til að halda fjöldafundi. Erdogan forseti sakaði Þjóðverja til að mynda um að hegða sér eins og nasistar. Þegar utanríkisráðherra Tyrklands fékk ekki að koma til Hollands til að halda kosningafund þar, voru viðbrögðin svipuð. Nokkrum dögum síðar bætti Erdogan um betur og sagði Hollendinga ábyrga fyrir fjöldamorði 8.000 múslíma í Srebrenica í Bosníu, árið 1995. Í Srebrenica voru framin mestu fjöldamorð frá lokum síðari heimstyrjaldar. Léttvopnaðir hollenskir friðargæsluliðar voru yfirbugaðir á yfirlýstu griðasvæði Sameinuðu Þjóðanna af her Bosníu-Serba sem myrti þar 8.000 karla og drengi.

Á fimmtudagsmorgun, eftir að úrslit þingkosninganna í Hollandi urðu ljós, sagði Cavusoglu, utanríkisráðherra Tyrklands, að í raun væri enginn munur á Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, og þjóðernispopúlistanum Geert Wilders, sem háði kosningabaráttu sína undir slagorðinu „Stöðvum íslam“. Þá varaði Cavusoglu við trúarbragðastríði í Evrópu.

Þar sem mjótt er á munum milli fylgjenda og andstæðinga nýrrar stjórnarskrár, má vera að Erdogan og ríkisstjórn hans líti einfaldlega svo á að það sé gríðarlega mikilvægt að ná til kjósenda sem búsettir eru í Evrópu. Það skýri hörð viðbrögð við því að fjöldafundirnir hafi verið bannaðir. Þó má einnig vera að með hörðum viðbrögðum og fullyrðingum um fjöldamorð á múslímum og yfirvofandi trúarbragðastyrjöld, séu tyrkneskir stjórnmálamenn að reyna að spila á þjóðerniskennd heima fyrir. Með harðri afstöðu gegn evrópskum stjórnmálamönnum séu þeir að stilla málum þannig upp að atkvæði með nýrri stjórnarskrá sé atkvæði greitt sterku og sjálfstæðu Tyrklandi.

Ásakanir um einræðistilburði eftir valdaránstilraun

15. júlí 2016 gerði hluti af tyrkneska hernum misheppnaða tilraun til að ræna völdum í Tyrklandi. Í kjölfarið voru neyðarlög sett í landinu. Síðan þá hafa tugir þúsunda verið handteknir og yfir 100 þúsund opinberum starfsmönnum verið vísað frá störfum. Þeirra á meðal er fjöldi kennara og starfsmanna dómskerfisins. Þá hafa þingmenn verið handteknir, meðal annars tveir helstu leiðtogar stærsta stjórnmálaflokks Kúrda, HDP.

Stjórnvöld hafa einnig gengið hart fram gegn fjölmiðlum og lokað dagblöðum, tímaritum og ljósvakamiðlum. Fjöldi blaðamanna hefur verið handtekinn, þeirra á meðal Deniz Yücel, blaðamaður þýska dagblaðsins Die Welt, sem handtekinn var í febrúar, við hörð mótmæli þýskra stjórnvalda. Mannréttindasamtök og samtök um fjölmiðlafrelsi, svo sem CPJ og RSF hafa sakað Erdogan og stjórn hans um að reyna að þagga niður í gagnrýnum fjölmiðlum.

Fjöldafundir bannaðir nema með leyfi stjórnvalda

Neyðarlög eru enn í gildi í Tyrklandi, og verða við lýði til 19. apríl – fram yfir þjóðaratkvæðagreiðsluna. Neyðarástandi hefur í þrígang verið lýst yfir frá valdaránstilrauninni 21. júlí. Á meðan neyðarástand er við lýði í Tyrklandi, má ekki efna til mótmæla eða halda fjöldafundi, nema með leyfi yfirvalda.

Lögregla notaði táragas og gúmmíkúlur til að mótmælum gegn fyrirhuguðum stjórnarskrárbreytingum í höfuðborginni Ankara, 9. janúar 2017.
Lögregla notaði táragas og gúmmíkúlur til að mótmælum gegn fyrirhuguðum stjórnarskrárbreytingum í höfuðborginni Ankara, 9. janúar 2017.  Mynd: EPA

Stjórnarandstaðan hefur gagnrýnt að þjóðaratkvæðagreiðslan verði haldin á meðan svo er. Andstæðingar stjórnarskrárbreytinganna hafa notast mikið við samfélagsmiðla til að koma skilaboðum sínum á framfæri. Erdogan forseti hefur hins vegar haldið fjölda funda með stuðningsmönnum sínum, auk þess sem hann og aðrir forystumenn í ríkisstjórn hans, hafa verið mjög áberandi í fjölmiðlum. Meðal annars vegna deilna við stjórnvöld í hinum ýmsu Evrópuríkjum.