„Töfrarnir gerast þegar þú hlustar“

Leiklist
 · 
Lestin
 · 
Menningarefni

„Töfrarnir gerast þegar þú hlustar“

Leiklist
 · 
Lestin
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
08.04.2017 - 17:35.Vefritstjórn.Lestin
Fyrsta alþjóðlega spunahátíðin á Íslandi stendur yfir dagana 5. - 9. apríl, en hún er haldin á vegum Improv Ísland hópsins. Bjarni Snæbjörnsson meðlimur hópsins segir að farið hafi verið á stað með hátíðina til að fylgja eftir velgengni síðasta árs.

„Við byrjuðum að sýna í Þjóðleikhúskjallaranum í febrúar í fyrra og það hefur gengið svakalega vel. Því ákváðum við undir dyggri leiðsögn Dóru Jóhannsdóttur, listræns stjórnanda, að halda improv festival í Reykjavík,“ segir Bjarni í samtali við Lestina. Áður hefur Improv Ísland hópurinn tekið þátt í stórri alþjóðlegri hátíð í New York. 

Mynd með færslu
 Mynd: FB
Bjarni Snæbjörnsson.

„Við vildum vera hluti af þessari flóru, sýna fólki möguleikann í spunanum. Það eru til svo ofboðslega margir ólíkir hlutir þarna úti og hingað eru að koma algjörir snillingar,“ segir Bjarni og nefnir sem dæmi eins og eins manns spunakabarett, sænskan hárkollu- og hattaspuna og franskan hóp sem byggi á allt öðrum grunni en Improv Ísland. 

Mynd með færslu
 Mynd: https://www.improviceland.com/
Meðlimir Improv Ísland í villtum spuna.

En hvað er svona heillandi við spunann? Bjarni segir það vera frelsið til að skapa eitthvað í nú-inu alveg frá grunni án þess að vita hvað það er. Það að fara út á svíð í díalóg við áhorfendur og hvort annað, en einna mikilvægast sé að hlusta. „Hlusta á hina, hvað er það sem er að koma, vera í núinu, búa til töfra þannig. Töfrarnir gerast ekki þegar maður er einn í sínum heila og ætlar að keyra sýninguna áfram og ráða ferðinni, heldur gerast töfrarnir þegar þú hlustar og átt í samskiptum og í samhengi við áhorfendur og hina.“

Improv festivalið stendur yfir frá miðvikudegi til sunnudags með sýningum og viðburðum í Þjóðleikhúskjallaranum og Græna herberginu. Anna Gyða Sigurgísladóttir ræddi við Bjarna Snæbjörnsson í Lestinni.