Tíu leikmenn berjast um fimm sæti í EM-hópnum

16.05.2017 - 10:07
Markmið Íslands á EM kvenna í Hollandi í sumar er að komast upp úr sterkum riðlinum og þegar í útsláttarkeppnina er komið getum við farið að trúa því að getum unnið mótið. Þetta segir Freyr Alexandersson þjálfari. Keppnin hefst eftir tvo mánuði og lokakafli undirbúnings er að hefjast. 23 leikmenn skipa hópinn sem heldur til Hollands í byrjun júlí. Freyr hefur þegar ákveðið að velja tiltekna átján leikmenn en tíu koma til greina í þau fimm sæti sem eftir standa.

Freyr var gestur Morgunvaktarinnar á Rás 1 og ræddi þar undirbúning fyrir þátttökuna. 

Nokkrir lykilleikmenn hafa glímt við meiðsli og óvíst hvort þeir verða komnir í úrvalsform fyrir EM. Freyr gat þó glaðst því Sandra María Jessen og Hólmfríður Magnúsdóttir léku með félagsliðum sínum í Pepsí deildinni í gær. Harpa Þorsteinsdóttir og Dagný Brynjarsdóttir eiga lengra í land. 

Freyr sagði vel búið að liðinu fyrir keppnina; Ísland væri í fremstu röð hvað þau mál varðar. Dagskrá liðsins meðan á mótinu stendur er svo gott sem tilbúin og sem dæmi nefndi hann að nánast sé frágengið hvað verður borðað á hverjum tíma. 

Spurður um markmið kvaðst Freyr hugsa stórt. Fyrsta markmið væri að komast upp úr riðlinum en mótherjar Íslands verða Frakkland, Sviss og Austurríki. Það verði vandasamt verk að komast áfram því lið Frakka og Svisslendinga séu feikilega sterk. En með íslensku þjóðina að baki sér og frábærri stemningu geti allt gerst og þegar í útsláttarkeppnina sé komið getum við trúað því að við getum unnið mótið. 

Mynd með færslu
Björn Þór Sigbjörnsson
dagskrárgerðarmaður
Morgunvaktin
Þessi þáttur er í hlaðvarpi