Þúsundir mættu í fjölskylduboðið

27.12.2016 - 06:13
epa05688965 General view of guests sitting at tables during the 15th birthday party of Mexican teenager Rubi, in La Joya, Mexico, 26 December 2016. Rubi shot to fame when her parents posted a video on social media inviting everyone who can, to attend
 Mynd: EPA  -  EFE
15 ára afmælisveisla Rubi Ibarra varð öllu fjölmennari en hún eða foreldrar hennar ætluðu í fyrstu. Vegna mistaka föður hennar var boðið í afmælisveisluna opinbert á samfélagsmiðlum, en ekki aðeins fyrir fjölskylduna. 

Faðirinn, Crescencio Ibarra, sendi út boð á YouTube þar sem hann sagði alla velkomna í veisluna. Myndbandið er opið öllum og deildi mexíkóskur ljósmyndari því á Facebook síðu sinni. Móðir hennar reyndi að útskýra fyrir fólki að aðeins þeim nánustu væri boðið en ekki gervallri heimsbyggðinni, en þá þegar höfðu tugir dreift myndbandinu. Milljónir hafa séð boðið og hefur mikið verið um það rætt. Mexíkóska flugfélagið Interjet gekk svo langt að bjóða 30 prósent afslátt af ferðum til næsta flugvallar við bæ Ibarra fjölskyldunnar.

Heilmikið var um að vera í afmælinu að sögn AP fréttastofunnar sem var á staðnum ásamt fjölda fjölmiðla. 15 ára afmæli eru stórafmæli í Mexíkó, kannski líkust fermingarveislum á Íslandi. Hundruð mættu í gærmorgun til messu en svo bættist verulega í hópinn þegar á leið daginn. Lögregla og Rauði krossinn fylgdist með að allt færi vel fram á meðan þúsundir skemmtu sér á tónleikum í veislunni.

Nágrannar Ibarra fjölskyldunnar sjá tækifæri í allri athyglinni. Þeir vonast til þess að þetta opni augu almennings fyrir fátæktinni í þorpinu og bágri atvinnustöðu.

Hér fyrir neðan má sjá umfjöllun fréttastofu Univision um afmælisveisluna.

 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV