Þúsundir á skíðum um páskana

12.04.2017 - 18:42
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV  -  Jóhannes Jónsson
Mestu skíðadagar ársins eru framundan þegar fjölskyldur halda í páskafrí og dvelja löngum stundum í skíðabrekkunum. Öll helstu skíðasvæði landsins verða opin um páskana þó útlitið hafi ekki verið sem best fyrir fáum dögum.

Snjór er það sem skíðamenn vilja og það mikið af honum. Og sú ósk fólks á skíðasvæðum um allt land hefur ræst núna síðustu daga. 

„Snjóað og snjóað síðustu daga“

„Heldur betur já,“ segir Egill Rögnvaldsson, svæðisstjóri skíðasvæðisins í Skarðsdal við Siglufjörð. „Það var nú ekki huggulegt fyrripart vetrar. En nú hefur bara snjóað og snjóað síðastliðna 7-8 daga og lítur bara ljómandi vel út.“ Og svipaða sögu er segja um allt land. Sums staðar var jafnvel óttast að ekkert yrði hægt að komast á skíði um páskana sökum snjóleysis.

Skíðavikan og fleiri hátíðir um páskana

Þannig var það til dæmis á Ísafirði, en þar hafa skíðabrekkurnar verið ansi berar. Þar til fyrir nokkrum dögum þegar snjórinn lét loksins sjá sig á réttum tíma fyrir Skíðavikuna sem var sett í dag. Og á skíðasvæðum nota menn einmitt tækifærið um páskana til að halda mót og alls kyns hátíðir. Skíðavikan á Ísafirði, páskaeggjamót á Dalvík, páskatrimm í Hlíðarfjalli, Týrólastemmning í Oddsskarði, og svo mætti áfram telja.

Völdu Skarðsdal þriðja árið í röð

Og margir taka sig upp og verja páskafríinu á skíðastöðum. Helgi Svavar Helgason og Stefanía Thors völdu að fara á Siglufjörð ásamt dætrunum Ólafíu Kristínu og Áslaugu Svövu. „Já, við höfum komið hérna nokkrum sinnum áður. Ég held að þetta sé þriðja árið í röð sem við komum hingað. Besta skíðasvæði á landinu, líka bestu samlokurnar í sjoppunni hérna og bara skemmtilegast að vera hérna,“ segir Helgi.
Við náum ykkur þegar þið eruð rétt að byrja, hvernig líst ykkur á?“
Það er svolítið slæmt skyggni. En við erum búin að prófa, fórum eina ferð, og það er alveg hrikalega gott færi,“ segir Svava.

Fara oft á skíði

Og systurnar eru ánægðar. „Okkur líst bara mjög vel á, það er mjög gaman hérna. Sérstaklega veðrið það er mjög gott.“ 
Farið þið oft á skíði?
„Já, þegar það er vetur, eða mikill snjór.“

Páskarnir hápunktur tímabilsins

Og ef veðrið verður til friðs er líklegt að nokkur þúsund manns renni sér og gangi á skíðum næstu daga. „Páskarnir eru náttúrulega hápunktur á tímabilinu, það er alveg ljóst,“ segir Egill. „Og það væri skelfilegt að missa páskana alveg út.“

 

Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV