Þórdís Elva og Tom Stranger tekin af dagskrá

09.03.2017 - 10:58
Mynd með færslu
 Mynd: TED
Aðstandendur ráðstefnunnar WOW - Women of the World í Lundúnum hafa ákveðið taka fyrirhugaðan fyrirlestur Þórdísar Elvu Þorvaldsdóttur og Tom Stranger af dagskrá ráðstefnunnar. Þeir segja þetta gert til að bregðast við undirskriftasöfnun sem yfir 2.300 manns skrifuðu undir á netinu þar sem nærveru Stranger á ráðstefnunni var mótmælt.

Ráðgert hafði verið að Þórdís og Stranger myndu verða með fyrirlestur 11. mars á WoW-ráðstefnunni. Hann hefur verið færður til 14.mars og verður því ekki hluti af formlegri dagskrá ráðstefnunnar.

Nærvera Stranger var gagnrýnd nokkuð og töldu margir að hún myndi ýfa upp vondar minningar hjá þolendum kynferðisofbeldis. „Við töldum að ráðstefnan væri ekki viðeigandi vettvangur fyrir Stranger. Að konur þyrftu ekki að heyra um nauðgun frá nauðgara,“ segja skipuleggjendur undirskriftasöfnunarinnar á vef hennar í dag. 

Í yfirlýsingu frá Jude Kelly, stjórnanda ráðstefnunnar segir að ákvörðunin hafi verið tekin eftir að skipuleggjendur ræddu við fórnarlömb kynferðisofbeldis, styrktaraðila ráðstefnunnar og aðra áhorfendur. Með því að færa fyrirlesturinn og hafa hann utan dagskrár fái fleiri tækifæri til að sjá hann og leggja eitthvað til málanna.

Fyrirlestur Þórdísar og Stranger á TEDx hefur vakið heimsathygli. Nýverið kom bók þeirra, Handan fyrirgefningarinnar, út þar sem þau segja frá átta ára sáttaferli. Þórdís Elva var um helgina gestur í áströlskum sjónvarpsþætti þar sem hún varði þá ákvörðun sína að hafa samband við manninn sem nauðgaði henni þegar hún var sextán ára. Hún sagði að fyrirgefningin hafi ekki verið ætluð fyrir hann heldur hana - til að hún gæti skilað skömminni „sem var að leggja líf mitt í rúst“.