Þjóðhátíðarmiðinn hækkað um 72% frá 2010

21.04.2017 - 11:00
Mynd með færslu
 Mynd: Sighvatur Jónsson  -  RÚV
Miði á Þjóðhátíð hefur hækkað um 72% síðan árið 2010. Hann kostar 23.900 krónur í ár en árið 2010 kostaði hann 13.900 krónur og hefur því hækkað um tíu þúsund krónur á sjö árum. Vísitalan hefur hækkað um 22% frá því árið 2010 og samkvæmt því ætti miðinn að kosta um 17 þúsund krónur. 

„Það er rétt að lokaverð á Þjóðhátíð hefur hækkað um 10.000 krónur frá 2010 og um 6.000 frá 2012 en forsöluverð hefur hækkað mun minna á móti. Núna erum við með nokkur verð og fer verðlagningin eftir því á hvaða tíma þú kaupir miðann og hvað fylgir miðanum. Á undanförnum árum höfum við lagt meira púður í gæsluna okkar til að auka enn frekar öryggi gestanna og er það m.a. skýringin á hækkuninni í ár. Þá höfum við á síðustu árum einnig horft meðal annars til verðlagningar á tónleikum í Reykjavík.“ Segir Dóra Björk Gunnarsdóttir, formaður Þjóðhátíðarnefndar.

Búið er að tilkynna um nokkrar hljómsveitir sem munu koma fram á hátíðinni í ár. Þær eru meðal annars Stuðlabandið, Skítamórall og Emmsjé Gauti. Á vefsíðu hátíðarinnar er tekið fram að miðinn er ekki fríðindalaus en honum fylgir meðal annars frí máltíð á hátíðarsvæðinu og tveir frímiðar í sund yfir helgina.

Til samanburðar kostar 21.900 krónur á tónlistarhátíðina Iceland Airwaves sem fer fram í nóvember í haust. Um er að ræða fimm daga tónlistarhátíð þar sem innlendir og erlendir tónlistarmenn troða upp á fjölda tónleikastaða í Reykjavík. Hratt á hæla Airwaves hátíðarinnar fylgir tónlistarhátíðin Secret Solstice en inn á hana kostar 24.900 krónur. Þar koma fram hljómsveitir á borð við Foo Fighters, Prodigy og Chaka Khan.

Mynd með færslu
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV