„Það er einhver fiðringur í okkur“

Bókmenntir
 · 
Kastljós
 · 
Menningin
 · 
Myndlist
 · 
Menningarefni

„Það er einhver fiðringur í okkur“

Bókmenntir
 · 
Kastljós
 · 
Menningin
 · 
Myndlist
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
14.05.2017 - 10:26.Vefritstjórn.Kastljós, .Menningin
Of nördalegir fyrir myndlistarheiminn og of listrænir fyrir nördaheiminn, er einkunnin sem myndasöguhópurinn GISP! gefur sjálfum sér. Á dögunum kom út tólfta tölublað GISP! og í tilefni af því var opnuð sýning með úrvali úr verkum þeirra í Grófarhúsi Borgarbókasafnsins.

Myndasögublaðið GISP! teygir rætur sínar aftur í Myndlista- og handíðaskóla Íslands þar sem þrír stofnfélaganna voru við nám. Fyrsta blaðið kom út árið 1990 eftir að Bjarni Hinriksson, sem hafði lært myndasöguteikningar í Frakklandi, slóst í hópinn.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Nýjasta tölublað GISP!

Jóhann Ludwig Torfason segir að myndasögur hafi verið nokkuð óþekkt fyrirbrigði á Íslandi á þessum tíma „Við vorum þess fullvissir að við værum að koma með pródúkt inn á þyrstan markað. Það var gleðistund þegar fréttist að blaðið virtist uppselt í annarri hverri sjoppu. Þegar nánar var að gáð var kannski bara búið að taka það til hliðar, því það hafði ekki hreyfst mikið,“ segir Jóhann.

„Það er fullt af fólki þarna úti með lifandi áhuga á myndasögu. Margir sem eru að gera myndasögur, sem er ólíkt því sem var, kannski ekkert rosalega margir sem eru að kaupa hana, ekki þessa íslensku allavega. Þannig að markaðurinn er enn svolítið strembinn. En við erum ekkert að æsa okkur yfir því. Við erum ekki að þessu fyrir markaðinn, eins ótrúlegt sem það nú er,“ segir Jóhann.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Jóhann Ludwig Torfason og Halldór Baldursson

„Við höfum náð að halda þessu tiltölulega underground, þetta hefur verið of listrænt fyrir nördaheiminn en of nördalegt fyrir myndasöguheiminn. Svo við höfum náð að vera þarna á okkar stað, og mjög  sáttir við það,“ segir Halldór Baldursson.

Hann segir að hópurinn sé virkari núna en áður. „Það er einhver firðingur í okkur að teikna þetta í dag. Ég hef meira gaman að þessu núna. Það var svona miðaldatímabil hjá okkur, hinar myrku miðaldir, í kringum aldamótin, þá kom þetta mjög strjált út, það var tíu ára tímabil kannski með einu blaði. En núna erum við sprækari. Það er eitthvað að gerast.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bjarni Hinriksson

Í nýjasta tölublaðinu fór Bjarni Hinriksson nýjar leiðir og byrjaði á sögu sem hann vissi sjálfur ekki hvernig endaði. „Ég ákvað að fara af stað með tvær persónur sem urðu til í rissi og senda þær út í geiminn í leit að versta brandara alheimsins. Það var eiginlega upphafspunkturinn. Og úr verður frásögn sem á endanum einhvern veginn tekst að fá endi,“ segir Bjarni.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Sem unglingur las hann allt sem hann fann en segir að hasarblöðin hafi mótað hann sem listamann. „En innihaldið er oft líkara því sem gerist í evrópskum myndasögum. Þannig að það má segja að þær séu þannig þessar myndasögur að það virðist oft vera mjög mikið um að vera en í grunninn er þetta mest um manneskjuna.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þorri Hringsson

Þorri Hringsson segir að hann sé íhaldssamasti höfundur hópsins en hans áhrif koma helst frá Hergé og einföldum sögum. „Það er bara það sem mér finnst skemmtilegast að gera. Ég er dálítill móralisti, ég er alltaf að móralisera yfir fólki. Og hafa svolítið gaman að því í leiðinni.“