Telur ekki ástæðu til að efla eldvarnir

17.07.2017 - 12:35
Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage  -  RÚV
Eldur kviknaði í kísilmálmverksmiðju United Silicon í Helguvík í Reykjanesbæ í nótt. Þetta er í annað sinn á þremur mánuðum sem eldur kviknar í verksmiðjunni. Kristleifur Andrésson, umhverfis- og öryggisstjóri fyrirtækisins, segir ekki ástæðu til að efla eldvarnir.

1600 gráðu heitur málmur flæddi niður á gólf verksmiðju United Silicon um þrjúleytið í nótt þegar verið var að tappa kísilmálmi af ofni verksmiðjunnar en gatið sem gert var til þess var of stórt. Töluverður reykur myndaðist inni í verksmiðjunni. Ásgeir Þórisson hjá Brunavörnum Suðurnesja sagði í morgun að eldurinn hafi ekki verið mikill, starfsmenn hefðu náð að slökkva áður en slökkvilið kom á staðinn. Í tilkynningu frá United Silicon segir að skemmdir hafi ekki verið metnar ennþá og því ekki hægt að segja til um hversu miklar þær eru. 

Kristleifur Andrésson, umhverfis- og öryggisstjóri United Silicon, segir að það hafi í raun enginn eldur kviknað. Framleiðsla haldi áfram en finna verði aðrar leiðir til að tappa kísilmálmi úr ofninum. „Það sem gerðist var það að deigla yfirfylltist þegar menn voru að tappa af ofninum og heitur málmur, 1600 gráðu heitur rann á gólfið. Fyrir því urðu rafmagnskaplar og glussaslöngur sem að skemmdu þennan búnað. Var þetta mikill eldur? Það var í rauninni enginn eldur, það var bara málmurinn sem að stendur á gólfinu, upp gýs mikill reykur í skamman tíma og enginn eldur heldur bara bræddi slöngur og rafmagnskapla,“ segir Kristleifur. 

Hann segir að starfsmenn hafi brugðist hárrétt við og því engin hætta á ferðum. Mikill eldur kviknaði í verksmiðjunni átjánda apríl og starfsemin lá niðri í rúma viku. Kristleifur segir ekki ástæðu til að efla eldvarnir. „Þetta er ekki eldur sem kom upp núna, það hefur komið einu sinni upp eldur í verksmiðjunni og það er allt og sumt.“

Sérfræðingum Umhverfisstofnunar var tilkynnt um eld um klukkan fimm í morgun. Þeir hafa fylgst grannt með því hvernig starfsmönnum gengur að bregðast við. Einar Halldórsson, sérfræðingur í eftirlitsteymi Umhverfisstofnunar, segir ástæðu til að skoða þetta atvik sérstaklega, til að mynda þegar kemur að eldvörnum. Það sé þó vinnueftirlitsins en ekki Umhverfisstofnunar að huga að því. „Við erum að fara yfir þetta frá okkar enda, við fengum tilkynningu samkvæmt ákvæðum í starfsleyfi og við erum að skoða stöðuna okkar megin. Er einhver ástæða fyrir Umhverfisstofnun til að bregðast við? Ekki að svo stöddu, ég reikna með að við kíkjum á svæðið og förum yfir aðstæður en þetta er í rauninni bara í skoðun ennþá,“ segir Einar.