Tekist á um hótelbyggingu á Skógum

25.02.2014 - 18:20
Mynd með færslu
Ágreiningur er innan sveitarstjórnar Rangárþings eystra um uppbyggingu á Skógum.

Meirihluti skipulagsnefndar bókaði í gær andstöðu sína við deiliskipulagsbreytingu þar sem meðal annars er gert ráð fyrir að hótel rísi sunnan við lóð gamla barnaskólans. Meirihlutinn sat hins vegar hjá við afgreiðslu tillögunnar, en hún var samþykkt af tveimur nefndarmönnum. Tillagan var síðan samþykkt af meirihluta sveitarstjórnar. Í bókun meirirhluta skipulagsnefndar segir meðal annars að á Skógum hafi orðið ákveðið skipulagsslys sem erfitt sé að taka til baka. Ekki sé skynsamlegt að samþykkja hugmyndir Skóga fasteignafélags, um hótelbyggingu á þeim stað nærri Skógá, sem rætt hafi verið um, að svo komnu máli.  Vitað sé að mjög skiptar skoðanir séu um málið og að vafasamt sé að leggja í slíka vegferð án þess að hafa þokkalega djúpa sannfæringu fyrir gildi þess. Í bókun formanns skipulagsnefndar segir að undirbúningur fyrir skipulagið á Skógum hafi verið góður, unnið hafi verið að því að finna skipulaginu á Skógum farsæla lausn og leiðir til þess að geta tekið vel á mótum ferðamönnum sem fari ört fjölgandi.