Sykurlaust gos tengt alvarlegum sjúkdómum

21.04.2017 - 12:12
Gos í glasi með klökum
 Mynd: Mitaukano  -  Pixabay
Neysla sykurlausra gosdrykkja, sem innihalda sætuefni, eykur verulega líkur á heilabilun og heilablóðfalli. Þetta er niðurstaða rannsóknar bandarískra vísindamanna.

Grein um rannsóknina birtist í Stroke – tímariti um samtaka um hjartavernd í Bandaríkjunum.

Rannsóknin náði til 4.372 manna. Helsta niðurstaða hennar er að fólk sem drekkur eina dós af sykurlausu gosi á dag, sé nær þrefalt líklegra til að fá heilablóðfall eða þjást af heilabilun, en fólk sem drekkur sykurlaust gos innan við einu sinni í viku.

Rannsakendur tóku tillit til ýmissa þátta, svo sem aldurs þátttakenda í rannsókninni, kyns, menntunar, reykinga og hve mikið og hve hollan mat fólk borðaði. Eftir að tekið hafði verið tillit til allra þessara þátta, reyndist fólk sem drakk sykurlaust gos talsvert líklegra til að fá heilablóðfall eða heilabilunarsjúkdóm, þar á meðal alzheimer. Fólk sem drakk sykurlaust gos var 2,96 sinnum líklegra til að fá heilablóðfall og 2,89 sinnum líklegra til að fá alzheimer. Engin tölfræðileg fylgni fannst hins vegar milli drykku sykraðra gosdrykkja og þessara sjúkdóma.

Þótt rannsóknin sýni ákveðin tölfræðileg tengsl, er ekkert hægt að fullyrða um orsakasamhengi, líkt og höfundar greinarinnar í Stroke benda á. Niðurstöðurnar byggjast á svörum þátttakenda við spurningalistum.

Þessi rannsókn er sú fyrsta sem sýnir að tengsl séu milli neyslu sætuefna og heilasjúkdóma. Fyrri rannsóknir hafa þó bent til tengsla mili drykkju bæði sykraðra sykurlausra gosdrykkja og tíðni æðasjúkdóma og heilablóðfalls.

 

Kári Gylfason
Fréttastofa RÚV