Mynd með færslu
21.04.2017 - 16:33.Halla Þórlaug Óskarsdóttir.Víðsjá
Guðrún Baldvinsdóttir segir að styrkumsóknaheilkenni sé nokkuð sem sjálfstæðir leikhópar glími við í dag, en þrátt fyrir það sé Fyrirlestur um eitthvað fallegt bráðskemmtileg sýning.

Guðrún Baldvinsdóttir skrifar:

Á þessu leikári hef ég fjallað um fátt annað en blessað heimildaleikhúsið - tengsl raunveruleika og sviðslista og hvernig raunveruleikinn er notaður til þess að skapa öðruvísi gerð af leikhúsi.  

Sýningin Fyrirlestur um eitthvað fallegt sem nú er sýnd í Tjarnarbíói af leikhópnum SmartíLab í leikstjórn Söru Martí má einnig flokka sem heimildaleikhús, þótt hér sé raunveruleikinn ekki beinlínis notaður sem viðfangsefni. Persónur eða persóna verksins er skálduð en sýningin hefur fyrst og fremst þann tilgang að fræða áhorfendur. Hér verður leikhúsið að einhvers konar meðferð, þar sem leikhúsið hefur þerapjútísk áhrif.  

Fyrirlestur um eitthvað fallegt fjallar um kvíða og kvíðaröskun, hvernig kvíði getur hamlað fólki í lífi og starfi, hvernig hann étur upp einstaklinga og einangrar þá sem þjást af viðvarandi kvíðaröskun. Kvíðaröskun er líffræðilegur sjúkdómur sem hægt er að meðhöndla með viðeigandi leiðum. Í verki Smartílabs er kvíði settur á svið með ýmsum hætti, upptök og áhrif hans eru könnuð og þær ólíku birtingarmyndir sýndar sem kvíðinn getur tekið á sig.  

Frásögnin rammast af Baldri, sem í upphafi stendur á sviði og býr sig undir að halda fyrirlestur um fegurðina og listina. Það líður ekki á löngu áður en Baldur missir tökin á sjálfum sér, hann ofandar og svitnar og hættir á endanum að geta talað. Við fáum innsýn inn í hugarheim hans þar sem taugaboð berast um að hann eigi að forða sér, hann eigi að slaka á og sannfærir hann um að þetta hafi verið glötuð hugmynd frá upphafi.  

Það er leikarinn Hannes Óli Ágústson sem í upphafi fer með hlutverk Baldurs, en síðar kemur í ljós að leikararnir eru öll á einn eða annan hátt þessi Baldur, eða að Baldur búi í okkur öllum. Ásamt Hannesi Óla eru leikararnir þau Agnes Wild, Guðmundur Felixsson, Kjartan Darri Kristjánsson og Sigrún Huld Skúladóttir en þau vinna  öll vel saman, þótt þau séu í raun oftast eitt og eitt eða í mesta lagi tvö í forgrunni á sviðinu. Þótt viðfangsefnið sé grafalvarlegt nær leikhópurinn að skapa kómískt leikhús, þar sem tæki grínsins eru notuð til þess að halda athygli áhorfenda og í raun búa til bráðskemmtilega sýningu.  

Leikmynd Brynju Björnsdóttur var vel úthugsuð en hún sýnir okkur grófgerðan heila, myndaðan úr spýtum sem leikararnir stíga inn og út úr eftir því hvort þeir séu fastir inni í sínum eigin hugarheimi þar sem kvíðinn ræður ríkjum eða í veruleikanum sem allir aðrir sjá.  Ljósahönnun Arnars Ingvarssonar spilaði einnig fallega með heilavirkinu þar sem ljósin féllu á leikmyndina og breyttu henni eftir því sem við átti.  Það eina sem truflaði örlítið var hversu mikla fjarlægð virkið skapaði í sumum senunum. Þá urðu leikararnir ósnertanlegir og erfitt var að ná tengingu við það sem átti sér stað fyrir aftan.  

Eins og ég sagði áðan þá hefur sýningin augljóst fræðslugildi. Heimildaleikhúsið sem slíkt, og sérstaklega í þessu formi getur þurft að glíma við það sem ég hef kosið að kalla styrkumsóknaheilkennið. Leikhús krefst fjármagns og í minni sýningum og hjá ungum leikhópum þarf að sækja um fjármagnið - með sannfærandi umsókn. Þá þarf að sannfæra alvarlega nefnd um að listin skipti jú máli, hún hafi hlutverk og að áhorfendurnir verði betri manneskjur eftir upplifunina.  

Leikhópurinn SmartíLab hefur að mestu náð að slíta sig frá heilkenninu þó að það eymi af því á sumum stöðum. Línan á milli þess að leiksýning sé fróðleg og að hún sé of dídaktísk er afar þunn og á köflum rásar sýningin örlítið yfir þá línu.  

Inn á milli sena heyrist rödd úr hljóðkerfinu sem minnir á voice-over tækni heimildamynda sem segir frá einkennum og meðferðum kvíða. Það voru fyrst og fremst þessir kaflar sem hefðu mátt missa sín, þótt þeir hafi vissulega verið fræðandi.  

Þær senur þar sem leikararnir leika og túlka kvíðann, fremur en að útskýra hann voru því áhrifamestar, og skildu mest eftir sig. Þó að það sé margt sem við vitum ekki um kvíða og kvíðaröskun í samfélaginu í dag, og þótt það sé mikilvægt, eins og leikhópurinn bendir á, að opna umræðu um kvíða sem sjúkdóm, þá held ég að allir þekki þá grunntilfinningu sem kvíðinn er. Þegar sviðið og leikhúsið sjálft var því notað í að skapa þá tilfinningu án útskýringa varð sýningin hve lífrænust. Kjartan Darri sýndi t.a.m. snilldarleik sem leikhússstarfsmaður sem ákveður að segja upp vinnunni vegna þess að hann er handviss um að samstarfsmenn hans séu að gefa honum dulin skilaboð. Tilfinningin sem magnast innra með honum túlkar leikarinn fyrst og fremst með hreyfingum og stigmagnandi reiði sem fer sívaxandi þar til hann getur loks ekki meir. Kjartan Darri hefur náð afar góðum tökum á ákveðinni list leikarans sem ég hef ekki orðin til þess að útskýra en þar sem hann notar líkamann til þess að túlka tilfinningar áreynslulaust og getur þannig dýpkað karakterana sem hann færir á svið.  

Fyrirlestur um eitthvað fallegt er áhugaverð sýning og kemur viðfansefninu vandlega til skila. Heimildaleikhúsið lifir nú góðu lífi og þetta form leikhúss hefur aldeilis haslað sér völl. Í framhaldi má ef til vill spyrja hvort það sé kominn tími til þess að brjóta þetta form enn frekar upp? Leikhópurinn SmartíLab hefur augljóslega tækin til þess að taka næstu sýningar skrefi lengra og það verður spennandi að fylgjast með þeirri þróun.