Styrjöld í Jemen var Víetnamstríð Egyptalands

18.03.2017 - 12:57
Afskipti Sádi-Arabíu af styrjöldinni í Jemen nú er ekki í fyrsta sinn sem Sádar hlutast til með málefni þessa fátæka grannríkis síns. Á sjöunda áratugnum blönduðu bæði Sádi-Arabía og Egyptaland sér í langvinna og mannskæða borgarastyrjöld í Norður-Jemen.

Í ljósi sögunnar fjallar um sögu Jemens á suðvesturhorni Arabíuskagans. Í fyrri þætti var fjallað um sögu Jemen til forna, glæsta fortíð landsins sem verslunarveldi og misheppnaðar tilraunir stórvelda til að brjóta Jemena undir sig.

Djöfullinn á konungsstóli

Mestallar nítjándu og tuttugustu aldirnar var Jemen skipt upp í tvö ríki, suðurhlutinn var þá bresk nýlenda og norðurhlutinn lengi sjálfstætt konungsríki undir stjórn ímama, eða einskonar trúarlegra konunga.

Ahmad bin Yahya, ímam og konungur Norður-Jemens frá 1948 til 1962, var gríðarlega spilltur og grimmur harðstjóri. Hann steypti Norður-Jemen í fátækt á meðan hann sjálfur makaði krókinn, og var stundum kallaður Djöfullinn af andstæðingum sínum.

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Ahmad bin Yahya konungur, neðri röð fyrir miðju, á síðustu árum valdatíðar sinnar.

Rændur völdum eftir nokkra daga sem konungur 

Ahmad bin Yahya lést í september 1962 og þá tók sonur hans Mohammed al-Badr við konungstigninni. En skömmu eftir að sonurinn settist á valdastól hrifasaði hópur lýðveldissinnaðra herforingja í norðurjemenska hernum af honum völdin.

Herforingjarnir voru undir áhrifum af byltingunni í Egyptalandi tíu árum áður og boðskap Gamals Abdul Nasser forseta Egyptalands, um lýðveldi, sósíalisma og sameinaðan Arabaheim.

Mohammed al-Badr, hinn nýorðni konungur, var þó ekki af baki dottinn. Honum tókst að flýja til Sádi-Arabíu þar sem hann safnaði liði til að berjast gegn valdaránsmönnum og tryggði sér einning stuðning Sáda. Á móti fengu lýðveldissinnarnir aðstoð frá læriföður sínum í Egyptalandi. 

Endalaus styrjöld

Þrátt fyrir afskipti stórveldanna snérist borgarastyrjöldin í Norður-Jemen fljótt upp í pattstöðu sem stóð árum saman.

Egypski herinn eyddi miklu púðri í að styðja lýðveldissinna og um 70 þúsund egypskir hermenn voru sendir til Jemen. Þúsundir létu lífið. Þessi miklu útlát egypska hersins í Jemen eru talin hafa átt þátt í ósigri Egypta í sex daga stríðinu við Ísrael 1967, og egypskir sagnfræðingar kallað Jemen „Víetnamstríð Egyptalands“.

Hlustið á allan síðari þáttinn um sögu Jemens í spilaranum hér að ofan.

Í ljósi sögunnar er á dagskrá Rásar 1 á föstudagsmorgnum klukkan 09.05 og endurfluttur á laugardögum klukkan 18.10. Heyra má fyrri þætti á síðu þáttarins og í hlaðvarpi RÚV.

Mynd með færslu
Vera Illugadóttir
dagskrárgerðarmaður
Í ljósi sögunnar
Þessi þáttur er í hlaðvarpi