Stjórnarmyndunarviðræður sigla í strand

13.04.2017 - 05:32
Loftmynd af þingi Norður-Íra, Stormont kastala nærri Belfast
 Mynd: APTN
Stjórnarmyndunarviðræður í Norður-Írlandi sigldu í strand í gær, sex vikum eftir kosningar. Að sögn AFP fréttastofunnar er engin lausn í sjónmáli. Takist ekki að mynda heimastjórn í Norður-Írlandi næsta mánuðinn verður annað hvort boðað til nýrra kosninga eða þjóðþingið í Lundúnum tekur við stjórnartaumunum.

Það andar köldu á milli tveggja stærstu flokkanna á norður-írska þinginu, Sinn Fein og DUP. Michelle O'Neill, leiðtogi Sinn Fein, sagði í lok mars að lengra yrði ekki komist í viðræðum. Síðan þá hafa flokkarnir reynt að ráða fram úr ágreiningi sínum en ákveðið hefur verið að gera hlé á viðræðum yfir páskana. James Brokenshire, ráðherra bresku stjórnarinnar í málefnum Norður-Írlands, segir einhvern árangur hafa náðst í viðræðunum, en enn sé langt á milli í fáum mikilvægum málaflokkum.

Friðarsamkomulag stríðandi fylkinga frá 1998, sem kennt er við föstudaginn langa, gerir ráð fyrir að stærstu flokkar mótmælenda og kaþólikka deili völdum í stjórn Norður-Írlands.
 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV