Stimpingar og of hraður akstur fyrir vestan

18.04.2017 - 15:00
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson  -  RÚV
Ein líkamsárás var kærð til lögreglu um páskahelgina á Ísafirði en að öðru leyti fóru hátíðarhöld þar, í tengslum við skíðavikuna og Aldrei fór ég suður, vel fram. Algengustu brotin um helgina voru umferðalagabrot en lögreglan á Vestfjörðum tók 93 fyrir of hraðan akstur, flesta í Ísafjarðardjúpi, sem þykir óvenju mikið.

Líkamsárásin átti sér stað aðfaranótt mánudags í miðbæ Ísafjarðar og einn leitaði á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða en var ekki alvarlega slasaður. Tveir menn voru handteknir og færðir í fangaklefa. Þótt tónlistarhátíðinni Aldrei fór ég suður væri lokið var nokkur fjöldi viðburða á dagskrá í bænum á páskadagskvöld.

Hlynur Snorrason, yfirlögregluþjónn á Ísafirði, segir að hátíðarhöldin hafi að öðru leyti farið vel fram. Aukin lögglæsla var um helgina í ljósi fjölda fólks í bænum og aukið fíkniefnaeftirlit en engin fíkniefnabrot rötuðu á borð lögreglu. 

Ekki er ljóst hversu margir gestir voru í bænum en Hlynur telur að það hafi ekki verið færra fólk en undanfarin ár. Þar sem ókeypis er inn á tónleika Aldrei fór ég suður er erfitt að átta sig á því hversu margir voru í bænum. 

Vegna slæmrar veðurspár voru óvenjumargir sem héldu heim frá Ísafirði á páskadag. Hlynur segir að helstu brotin í tenglsum við fjölda gesta á Ísafirði um helgina hafi verið umferðalagabrot en 93 voru teknir fyrir of hraðan akstur. Hlynur segir mildi að engin slys urðu í umferðinni.

Mynd með færslu
Halla Ólafsdóttir
Fréttastofa RÚV