Staðgengill í Svíþjóð lærði spor Gretu Salóme

Innlent
 · 
Eurovision
 · 
Menningarefni

Staðgengill í Svíþjóð lærði spor Gretu Salóme

Innlent
 · 
Eurovision
 · 
Menningarefni
02.05.2016 - 08:15.Freyr Gígja Gunnarsson
Staðgengill í Svíþjóð var fenginn til að læra lag og öll spor Gretu Salóme, fulltrúa Íslands í Eurovision, svo að tækniliðið í Globen í Stokkhólmi væri undirbúið fyrir atriði hennar, Hear then Calling. Þetta upplýsti Jónatan Garðarsson, fararstjóri íslenska hópsins, í viðtali við Morgunútvarpið á Rás 2 í morgun. Þrotlausar æfingar hafa staðið yfir hjá íslenska hópnum að undanförnu og strax annað kvöld verður fyrsta æfingin í Eurovision-höllinni.

18 manna Eurovision-hópur Íslands hélt utan snemma í morgun. Framlag Íslands verður 16. í röðinni á fyrra undanúrslitakvöldinu sem er á þriðjudag í næstu viku.

Jónatan Garðarsson, fararstjóri íslenska hópsins, ræddi við Morgunútvarpið á Rás 2 nokkrum mínútum áður en hópurinn flaug til Svíþjóðar. Jónatan segir góða og gilda ástæðu fyrir því af hverju lagt sé svona snemma af stað. „Fyrstu löndin byrja að æfa í dag og svo erum við á æfingu á morgun í höllinni. Við erum reyndar búin að vera æfa alla daga heima og það fyrsta sem við gerum þegar við komum út er að taka æfingu.“ Greta þurfi að halda líkamanum í góðu formi og hreyfingarprógramminu inni í vöðvaminninu.

Og það er hver mínúta dýrmæt í þessari keppni því hver þjóð fær aðeins ákveðinn tíma með töku-og tækniliði til að æfa atriðið. „Þeir eru reyndar búnir að vera æfa sig úti með staðgengli. Það er stelpa sem er búin að læra lagið, syngja það og hreyfa sig nákvæmlega eins og Greta mun gera á sviðinu. Hún er búin að æfa þetta tvisvar og við erum búin að sjá þær æfingar.“

Íslenski hópurinn fær 20 mínútur á sviðinu á morgun og svo verður hálftíma fundur með þeim sem stjórna þar sem hægt verður að koma á framfæri einhverjum smávægilegum breytingum.

 Jónatan segir það mikinn kost að geta flogið beint því stundum hefur ferðalagið verið ansi langt, með tveimur til þremur millilendingum. Og næstu dagar verða þéttbókaðir - Jónatan segir að búið sé að ráðstafa Gretu í ansi mörg viðtöl, því verði lítið um frítíma næstu daga.