Spáir meiri sveiflum á krónunni

13.03.2017 - 19:49
Höfuðstöðvar Arion banka.
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Það ríkti bæði óvissa og spenna um það hvernig markaðir myndu bregðast við tilkynningu stjórnvalda í gær um afnám hafta. Krónan byrjaði að veikjast strax í morgun en við lok markaða var hún nærri 3% veikari en í morgun.

Flestir gjaldmiðlar höfðu hækkað í verði um 2,5-3%. Fréttir bárust af því að óvenju margir hefðu lagt leið sína í bankaútibú í dag til að kaupa gjaldeyri. En þessi veiking krónunnar í dag kom sérfræðingum á óvart. Stefán Broddi Guðjónsson, forstöðumaður greiningardeildar Arion banka, segir veikingu krónunnar í dag vera talsvert mikla sveiflu á einum degi. „Þó ber þess að geta að krónan í dag, gagnvart evru, er á sama stað og hún var um miðjan febrúar og hún var talsvert veikari allt síðasta ár. Hreyfingin er töluvert mikil. Hún var líka veikari í sjómannaverkfallinu, svo ég taki dæmi. Heilt yfir höfum við verið að upplifa að krónan hefur verið að sveiflast mun meira síðustu mánuði en hún hefur verið að gera um langt skeið þar á undan. Ég held að það sé eitthvað sem er líklegt að við munum upplifa áfram. Það að höftum er aflétt og flæðið verður frjálsara og jafnvel að fyrirtæki geti varið sig fyrir gjaldeyrissveiflum í meira máli en áður var, og fjárfestar almennt, muni leiða til þess að sveiflur í gengi gjaldmiðilsins verði meiri.“

Stefán Broddi segir erfitt að spá fyrir um viðbrögð markaða á morgun, þegar höftum verður aflétt. „Það er kannski það eina sem ég get sagt að sé líklegt að verði að sveiflur muni aukast. Það finnst mér líklegt. Enda held ég ef við horfum aftur í tímann yfir lengra tímabil hafi sveiflur í gengi krónunnar, undanfarin misseri - í skjóli hafta - sveiflur verið afar litlar í sögulegu samhengi. En sá tími gæti verið liðinn.“