Snjór á meginlandi Evrópu

20.04.2017 - 20:59
Erlent · Evrópa · Veður
Það fundu fleiri fyrir páskahreti en Íslendingar. Á meginlandi Evrópu hefur snjóað víða og þessi óvenjulegi vorkuldi sunnarlega í álfunni hefur þegar valdið ýmsum búsifjum.

 

Það viðraði vel fyrir hindberjabændur í Mið-Serbíu í mars, sól og hlýtt, svo sem eins og venja er á þessum árstíma. Snjókoma í apríl er hins vegar eitthvað sem menn eiga ekki að venjast þar syðra. Hlífðarnetin gátu víða ekki haldið 30 sentímetra snjó frá plöntunum og sums staðar er helmingur uppskerunnar ónýtur.

Vínbændur í Weinfelden í Sviss þurftu ekki að slást við eins mikinn snjó og serbnesku bændurnir. Þar frysti hins vegar skyndilega og þá gripu þeir til þess að raða hundruðum kerta allt í kringum vínviðinn, sem verður gagnslaus til víngerðar ef hann frýs.

Sömu sögu var að segja af ávaxtabændum í Þýskalandi. 

Það var vetur víðar í álfunni í vikunni; í Mið-Rússlandi snjóaði hressilega og í Rúmeníu hefur snjórinn náð 20 sentímetrum. Þar er varað við hvassviðri og áframhaldandi snjókomu fram að helgi.
 

 

Mynd með færslu
Jóhann Hlíðar Harðarson
Fréttastofa RÚV