Skrímslavæðing gagnast engum

20.03.2017 - 20:40
Þórdís Elva Þorvaldsóttir, sem ásamt Tom Stranger, skrifaði um eftirmál þess þegar Tom nauðgaði Þórdísi á meðan þau voru í menntaskóla, segir eina af ástæðum bókaskrifana vera að berja niður þá staðalímynd að kynferðisbrot séu eingöngu framin af andlitslausum skrímslum sem sitji um konur í húsasundum. Fjallað var um bók þeirra, þá ákvörðun þeirra að ræða opinskátt um reynslu sína og viðbrögðin í Kastljósi í kvöld.

Bók þeirra Þórdísar Elvuog Toms, Handan fyrirgefningar, hefur vakið verulega athygli. Þórdís og Tom, sem var skiptinemi frá Ástralíu, voru kærustupar í menntaskóla. Eftir skólaball þar sem Þórdís hafði drukkið of mikið áfengi og hann kom henni til bjargar og fór með hana heim  nauðgaði hann henni. Síðan eru liðin tuttugu ár.

Á erfiðum tíma í lífi Þórdísar ákvað hún að skrifa Tom bréf. Það varð upphafið að margra ára sáttaferli, sem má segja að hafi lokið með þessari bók. Þórdís og Tom eru nú á ferð um allan heim  saman  að kynna bókina og tala um kynferðisofbeldi, uppgjör við fortíðina og veginn áfram. Viðtal Kastljóss við Þórdísi og Tom er aðgengilegt í spilaranum hér fyrir ofan.