Skotárásin í París rannsökuð sem hryðjuverk

19.03.2017 - 02:13
epa05855964 Passengers evacuated from Orly airport walk on a road at Orly airport, near Paris, France, 18 March, 2017. According to news reports a person has been shot by Operation Sentinelle anti-terror patrol soldiers at Orly Airport after trying to
 Mynd: EPA
Skotárásirnar í París í morgun verða rannsakaðar sem hryðjuverk. Þetta staðfesti franska lögreglan í kvöld. Árásarmaðurinn var skotinn til bana af lögreglu þegar hann hélt byssu að höfði hermanns og sagðist vilja deyja fyrir Allah.

Maðurinn skaut lögreglumann til bana fyrr í morgun þegar hann var beðinn um að stöðva bifreið sína og sýna lögreglu skilríki. Hann skaut lögregluþjóninn nokkrum skotum og flúði af vettvangi. Lögreglumaðurinn lést samstundis. Nokkru síðar var árásarmaðurinn kominn til Orly-flugvallar, þar sem hann greip byssu öryggisvarðar og hljóp inn á McDonalds-veitingastað þar sem öryggisverðir felldu hann. 

Maðurinn var á eftirlitslista lögreglu. Hann er sagður hafa orðið öfgasinnaður í fangelsi. Hann sat inni fyrir vopnað rán og fíkniefnabrot. Að sögn breska ríkisútvarpsins var leitað á heimili hans í dag. Þar var athugað hvort eitthvað fyndist sem tengdi hann við íslamska öfgahyggju, en ekkert hefur fundist.