Skólabörnum, sem fá ókeypis námsgögn, fjölgar

02.08.2017 - 06:12
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV- Rúnar Snær Reynisson  -  Nóg af skærum í skólastofunn
Enn fjölgar þeim grunnskólabörnum sem fá ókeypis námsgögn í haust, samkvæmt frétt á vef Ríkiskaupa. Ríkiskaup standa um þessar mundir fyrir sameiginlegu örútboði á námsgögnum fyrir sveitarfélög sem ætla að bjóða grunnskólanemum ókeypis námsgögn á næsta ári. Sveitarfélögin Blönduós, Garður, Hafnarfjörður, Hornafjörður og Mosfellsbær ætla að nýta sér útboðið. 

Ákvörðun um að bjóða sameiginleg innkaup fyrir skólaárið 2017 til 2018 var tekin í framhaldi af örútboði hjá Reykjanesbæ og reynslu Ísafjarðarkaupstaðar og Sandgerðis. Þá bættust Akranes og Garðabær nýlega í hóp sveitarfélaga sem ætla að greiða námsgögn fyrir nemendur sína.

Samkvæmt frétt Ríkiskaupa er gert ráð fyrir kaupum á um 19.500 blýöntum og 12.000 strokleðrum. Ríkiskaup sjá síðan um að senda öll gögn til seljenda í rammsamningnum. Það eru Rekstrarvörur, Múlalundur, Penninn og Egilsson. Samið verður við lægstbjóðanda og er áætlað er að niðurstaða liggi fyrir eftir eina til tvær vikur.

Í fundargerð bæjarráðs Reykjanesbæjar um þá ákvörðun að bjóða nemendum námsgögn segir að gjaldfrjáls námsgögn séu í takt við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem Ísland hefur staðfest aðild sína að. Þá séu ókeypis námsgögn einnig í takt við Fjölskyldustefnu bæjarfélagsins. „Þetta skref er liður í því að vinna gegn mismunun barna og styður það að öll börn njóti jafnræðis í námi,“ segir í fundargerð bæjarráðs.