Skíðamót Fossavatnsgöngunnar hafið

27.04.2017 - 22:59
Skíðagöngur skíðamóts Fossavatnsgöngunnar hófust í dag á Seljalandsdal á Ísafirði. Fossavatnsgangan hefur verið haldin á Ísafirði í yfir 80 ár og er nú stærsta skíðamót landsins. Göngustjóri segir að við skipulagningu göngunnar séu búin til ýmsar varaáætlanir til að bregðast við óvæntum aðstæðum en oftast sé þó unnið eftir áætluninni sem er ekki til. Í ár bráðnar snjórinn á ógnarhraða enda sjö stiga hiti í kvöld.

Vinsældir göngunnar aukist

Keppendum hefur fjölgað mikið eftir að gangan varð hluti af alþjóðlegri mótaröð World-loppet og er búist við að meira en þúsund manns frá 25 löndum taki þátt í ár. Í dag hófst keppni í 25 kílómetra göngu með frjálsri aðferð en einnig var boðið upp á eins kílómetra og fimm kílómetra fjölskyldugöngu.

Góð spá fyrir laugardaginn

Aðalgangan verður svo á laugardaginn þegar um 600 manns eru skráðir í 50 kílómetra Fossavatnsgöngu. Daníel Jakobsson, göngustjóri Fossavatnsgöngunnar segir að aldrei þessu vant líti aðstæður vel út fyrir laugardaginn og ekkert hvassviðri í kortunum. Hann segir skipuleggjendur ekki hafa haft áhyggjur af snjóleysi en það sé alltaf gott að vera með varaáætlanir, oftast sé þó unnið eftir varaáætlun D, sem er sú sem er ekki til. Helsta áskorunin í ár er hröð snjóbráðnun og segir Daníel að á undanförnum dögum hafi heill metri af snjólagi: „Það er sjö stiga hiti og það gerir það að verkum að brautin verður mjúk. En það verður allt svo auðvelt þegar veðrið er svona frábært.“

Mynd með færslu
Halla Ólafsdóttir
Fréttastofa RÚV