Skaut útskriftarmynd í villu Björns úr ABBA

Kvikmyndir
 · 
Síðdegisútvarpið
 · 
Menningarefni

Skaut útskriftarmynd í villu Björns úr ABBA

Kvikmyndir
 · 
Síðdegisútvarpið
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
17.07.2017 - 18:30.Nína Richter.Síðdegisútvarpið
Elsa María Jakobsdóttir er nýútskrifuð sem leikstjóri úr Danska kvikmyndaskólanum. Útskriftarmyndin hennar, Atelier, hefur verið sýnd á kvikmyndahátíðinni Karlovy Vary í Tékklandi, en myndin var tekin upp í Svíþjóð í listamannasetri sem hannað var fyrir Bjarnar Ulvaeus úr ABBA. Hún segir nýútskrifaða kvikmyndaskólanemendur njóta mikils stuðnings í Danmörku.

Mynd Elsu Maríu var tekin upp á Gotlandi í Svíþjóð, og segir hún tökustaðinn hafa komið til af hreinni tilviljun. „Ég var að leita að sérstöku húsi, sem ég hafði mikinn áhuga á. Það er gaman að segja sögur í hvítum skandinavískum rýmum,“ segir hún.  „[Það er] svona þessi skandinavíski mínímalismi sem er mjög mikið í tísku núna, hann finnst mér mjög áhugaverður sem backdrop [ísl. bakgrunnur] fyrir fólk i flækju og það framkallar skemmtilegan kontrast.

Elsa María segir valið á tökustaðnum hafa komið til þannig að þegar hún hafi flutt frá Íslandi til Kaupmannahafnar fyrir nokkrum árum, þá hafi henni fundist erfitt að finna sögunum stað. „Þær sögur sem maður hafði og þeir karakterar sem maður hafði, þeir pössuðu mjög illa úti á götuhorni í Kaupmannahöfn, það sagði mér voða lítið“. Hún segist í framhaldinu hafa farið að skoða inn í íbúðir á svæðinu, til að kanna hvernig fólk byggi. „Þetta var svona fínasta svið, og fínasta umhverfi“.

Mynd með færslu
 Mynd: Pexels
Skandinavískur hófstilltur stíll hefur verið mikið í tísku undanfarið.

Geggjuð skandinavísk villa

„Ég var í rauninni að leita að einhverri geggjaðri skandinavískri villu sem ég gæti fengið að skjóta í, í tvær vikur, og helst fyrir engan pening auðvitað. Það reyndist frekar erfitt að finna þannig hús. En það hafðist, og það fannst á Gotlandi“.

Elsa María segir húsið hafa verið byggt sem listamannabústað fyrir Björn Ulvaeus úr sænsku poppsveitinni ABBA. Hún segir að Björn hafi upphaflega ætlað að byggja upptökustúdíó við hliðina. „En svo hættir hann við að byggja stúdíóið þegar listamannabústaðurinn eða residensían er tilbúin, og síðan hefur hún eiginlega staðið tóm. Þannig að þegar við höfðum samband voru eigendur hússins afskaplega ánægðir og við fengum að taka myndina upp þar, og hún setur mikinn svip á myndina“.

Stiklu myndarinnar má sjá hér.

Mynd með færslu
 Mynd: Wikipedia
Sænska poppsveitin ABBA, Björn er annar frá vinstri.

Næsta eyja við tökustað Persona

„Þetta er svona hálfgert geimskip og óskaplega gaman að vera þar og Gotland er ótrúlegur staður.“  Elsa María nefnir að þegar hún hafi byrjað að segja kennurunum sínum frá hugmyndinni, um tvær konur sem þröngvað er saman í krefjandi rými, þá hafi kennararnir alltaf nefnt myndina Persona eftir Ingmar Bergman, „sem var einmitt mjög góð fyrirmynd. Svo leita ég að þessum tökustað í hálft ár og enda út um alla Danmörku og á Skáni í Svíþjóð. Svo enda ég á næstu eyju við Fårö, þar sem Bergman bjó - og tók upp Persona, þannig að það var dálítið spooky að lenda í því.“

Elsa María fagnar atburðum af því tagi og óskar eftir fleiri slíkum á ferlinum. „Ég vona að dálítið skrýtnar og næstum því óhugnanlegar tilviljanir muni ráða ferð, ég er alveg til í það.“ „Myndin mín er komin af stað, ég frumsýndi hana í Tékklandi núna á dögunum á hátíð sem heitir Karlovy Vary, og sýndi hana þar á undan á skólasýningum í Danmörku.“

„Góður tími til að koma út úr svona námi“

Hún segir að vel sé haldið utan um nýútskrifaða kvikmyndanema í Danmörku. Hún segist einnig hvergi smeyk við bransa sem oft er lýst sem erfiðum. „Skólinn er búinn að fara og kynna okkur fyrir öllum bransanum í Danmörku. Ísland er lítið og maður getur hringt í allt sniðugasta fólkið heima. Ég er ekkert rosalega stressuð, kannski ætti ég að vera það. En mér finnst líka að kannski sé þetta rosa góður tími til að koma út úr svona námi, af því að eftirspurn eftir sjónvarpsseríum er svakaleg.“

Hún segir þó að það sé ekki endilega það sem hún sé að stefna að, en útilokar ekki slíkt seinna meir. „Ég hef unnið í allskona bransa, sem blaðamaður og sem leiðsögumaður, en mér hefur aldrei verið boðið starf áður, en núna er fólk alveg að hringja. Ég hef aldrei upplifað það áður, þannig að þetta er allt í lagi, ennþá. Það er nú bara kominn mánuður.“

Öflugur stuðningur og fagfélög í Danmörku

„Fagmennska er rosa fyrirferðamikil í kvikmyndagerðinni í Danmörku, og að þetta sé fag og ekki bara hobbí. Eins og til dæmis fagfélögin eru ofsalega aktív og maður er tekinn inn í það bara um leið og maður kemst inn í skólann, þá er maður orðinn partur af leikstjórasambandinu sem er í miklum díalóg við sína meðlimi, og svona er þetta hjá framleiðendum líka.“ Hún segir Dani taka kvikmyndagerð mjög alvarlega. „Þetta er eitt þeirra helsta þjóðarstolt, þetta er þeirra sport að mörgu leyti. Ég veit að það var sett á dagskrá að vinna Óskarsverðlaun og svo er því bara fylgt eftir.“ Kvikmynd danska leikstjórans Susanne Bier, Hævnen, vann til Óskarsverðlauna árið 2010. Hér má sjá stiklu úr myndinni.

„Það er búið að skapa gott umhverfi sem tekur á móti nýútskrifuðum leikstjórum, svo að það þurfa ekki að líða 3-5 ár þangað til maður kemst aftur í upptökur. Og til dæmis bekkurinn sem var að útskrifast á undan mér fyrir 2 árum síðan, 5 af 6 eru búnir að taka upp mynd nú þegar. Þannig að það er svona einhvernveginn verið að hjálpa fólki að þrífast,“ segir Elsa María. „Mig langar ofsalega mikið til að gera mynd í fullri lengd og núna er ég að reyna að koma því í gang, bæði í Danmörku og svo er ég með verkefni hér á Íslandi sem ég þarf að ýta núna hressilega úr vör, reyna að koma því í gang og sjá hvernig það er.“

Elsa María Jakobsdóttir ræddi við Síðdegisútvarp Rásar 2 þann 17. 7. 2017.