Sérfræðingar telja meira aðhald nauðsynlegt

20.04.2017 - 13:09
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Óháðir sérfræðingar á vegum stjórnvalda telja að fyrirhuguð hækkun á virðisaukaskatti á ferðaþjónustuna, samhliða lækkun efra þreps virðisaukaskatts, gæti ógnað stöðugleika í efnahagslífinu. Almennt séu stjórnvöld að stíga lausar á bensíngjöfina í ríkisfjármálum þegar þau ættu að vera að bremsa.

Sérfræðingar látnir rýna hverja nýja áætlun

Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára, sem tekur bæði til fjármála ríkis og sveitarfélaga, liggur nú fyrir Alþingi. Sérstakur sérfræðingahópur, sem kallast fjármálaráð og er af meirihluta kosið af Alþingi, á samkvæmt nýjum lögum um opinber fjármál meðal annars að rýna fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar á hverju ári og kanna hvort hún standist markmið laganna.

Í fjármálaráði sitja Gunnar Haraldsson, ráðgjafi og fyrrverandi forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, sem er formaður, Arna Olafsson, lektor í fjármálahagfræði við Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn, Axel Hall, lektor við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík, Ásgeir Brynjar Torfason, lektor í viðskiptafræði við Háskóla Íslands, Hjördís Dröfn Vilhjálmsdóttir hagfræðingur og Þóra Helgadóttir Frost, ráðgjafi og fyrrverandi hagfræðingur hjá breska fjármálaráðinu.

Telja skattabreytingar geta ógnað stöðugleika

Í nýbirtu áliti sérfræðinganna um fjármálaáætlunina kemur fram að heilt yfir telji ráðið að margt í áætluninni standist vart grunngildi laganna um opinber fjármál. Meginskattbreytingin í fjármálaáætluninni felst í því að færa virðisaukaskatt á ferðaþjónustu um mitt næsta ár úr neðra þrepi, sem er 11%, í það efra, sem er 24%. Í framhaldinu á svo að lækka skattprósentuna í efra þrepinu niður í 22,5% . Sú lækkun er réttlætt með því aukna svigrúmi sem skapast með hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu. Fjármálaráð telur að við núverandi efnahagsaðstæður sé þessi sértæka aðgerð líkleg til að ganga gegn grunngildi laganna um stöðugleika.

Fjármálaráðuneytið telur að það að færa skattheimtu á ferðaþjónustu í efra þrep virðisaukaskatts, jafnframt því að lækka efra þrepið, hafi óveruleg áhrif á verðlag, straum ferðamanna og styrkingu krónunnar. Sérfræðingahópurinn segir að ef þetta reynist rétt flytji þessi aðgerð skattheimtuna af innlendri eftirspurn yfir á ferðaþjónustuna. Með stöðugleika að leiðarljósi sé slíkt óvarlegt nú um stundir þar sem það ýti undir þenslu.

Minna aðhald í ríkisfjármálum

Að auki segir sérfræðingahópurinn að útreikningar ráðsins bendi til þess að aðhald í ríkisfjármálum minnki á næstu árum. Þannig virðist sem stjórnvöld séu að stíga lausar á bensíngjöfina þegar þau ættu að vera að bremsa, eins og sérfræðingarnir orða það, og að sú slökun í aðhaldi ríkisfjármála sem hafi átt sér stað á undanförnum árum muni halda áfram.

Ráðið telur óheppilegt að slakað sé á aðhaldi þegar spenna hafi myndast í þjóðarbúskapnum líkt og nú. Minna aðhald ríkisins muni að öðru óbreyttu leiða til þess að meira álag verði á Seðlabankann að verja stöðugleika með peningamálastefnu sinni, sem geti leitt til hærri vaxta. Ef ríkisstjórn sýndi meira aðhald myndi það hins vegar draga úr verðbólguþrýstingi sem gerði Seðlabankanum kleift að halda vöxtum lægri en ella, segir fjármálaráð.

Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV