Segir neyðarástand kalla á samstillt átak

20.03.2017 - 18:59
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Gylfi Gíslason, varaformaður Mannvirkis - félags verktaka, segir stjórnvöld ekki hafa brugðist við neyðarástandi í húsnæðismálum og segir viðvarandi lóðaskort hjá sveitarfélögunum mikið vandamál. Á síðustu þremur árum hafa þrjú stærstu sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu úthlutað lóðum fyrir tæplega þúsund íbúðir.

Fasteignaverð hækkar dag frá degi og því hefur verið spáð að það eigi enn eftir að hækka um þrjátíu prósent á næstu tveimur til þremur árum. Þeir sem geta slást um hverja íbúð á markaði, á meðan ungt fólk - stærstu kynslóðir nýrra fasteignakaupenda, kemst ekki inn á markaðinn.

Dýrt og tímafrekt ferli að þétta byggð

Talað hefur verið um neyðarástand í húsnæðismálum, og undir það tekur varaformaður Félags verktaka. Hann segir lítið framboð keyra fasteignaverðið upp, og viðvarandi lóðaskortur á höfuðborgarsvæðinu leiki þar stórt hlutverk. „Það hefur auðvitað verið yfirlýst stefna, sem ég held að sé ágæt að mörgu leyti, að stunda þéttingu byggðar sem hefur gengið vel,“ segir Gylfi í samtali við fréttastofu. „En slíkt ferli er bæði tímafrekara og dýrara og þess vegna hefur það auðvitað komið niður á þeim fjölda íbúða sem hefur verið byggður síðustu árin.“

Þúsundir íbúða vantar nú þegar og þá þarf að byggja að minnsta kosti 8.000 íbúðir á næstu þremur árum, bara til að halda í við fólksfjölgun. Það sem af er kjörtímabilinu hafa þrjú stærstu sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu úthlutað lóðum undir 994 íbúðir. Reykjavíkurborg hefur hins vegar gefið út 2.400 byggingaleyfi á sama tímabili, sem undirstrikar áherslu hennar um að þétta byggð.

Segir tíma aðgerða runninn upp

Varaformaður félags verktaka kallar eftir samstilltu átaki til að bregðast við húsnæðisvandanum með auknu framboði og sérstökum aðgerðum til að létta ungu fólki fyrstu íbúðakaupin. Nú sé kominn tími til að hætta að þræta um vandann og hefjast handa. 

„Við þurfum að stórauka framboðið og sameinast um það hvernig við getum fjölgað íbúðum gríðarlega á næstu árum,“ segir Gylfi. Þetta er mjög tímafrekt ferli. Skipulagsferlið tekur langan tíma, yfirferðir hjá byggingafulltrúa tekur langan tíma og síðan ertu eitt og hálft til tvö ár að byggja fjölbýlishús. Við getum farið í að greina það eftir tíu ár af hverju þetta fór svona, mér finnst það kannski ekki skipta öllu máli í dag. Heldur hvernig við getum brugðist við núna og það eiga held ég sveitarfélögin, ríki og allir hagsmunaaðilar að einbeita sér að núna.“    

Ægir Þór Eysteinsson
Fréttastofa RÚV