Segir kaupin vekja ýmsar spurningar

20.03.2017 - 13:20
Katrín Jakobsdóttir mætti á fund forseta Íslands 2. desember 2016 til að ræða valmöguleika í stjórnarmyndunartilraunum.
 Mynd: Skjáskot  -  RÚV
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna og nefndarmaður í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis, segir kaup fyrrum kröfuhafa Kaupþings á stórum hlut í Arion banka vekja ýmsar spurningar.

Arion banki og Kaupþing tilkynntu í gærkvöldi að Kaupþing hefði selt fjórum fyrrum kröfuhöfum Kaupþings tæplega 30% hlut í Arion banka á 48,8 milljarða króna. Samkvæmt tilkynningunni eru kaupendurnir fjárfestingarsjóðirnir Attestor Capital með 9,99% hlut, Taconic Capital Advisors UK með 9,99% hlut, félag tengt bandaríska fjárfestingarsjóðnum Och-Ziff Capital Management Group með 6,6% hlut og bandaríski fjárfestingarbankinn Goldman Sachs með 2,6% hlut. Eftir kaupin á Kaupþing 57,9% í Arion banka, ríkissjóður 13%, og nýju fjárfestarnir samtals 29,2%. Fjárfestarnir hafa einnig kauprétt að 21,9% hlut til viðbótar.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, bendir á að hlutur tveggja fjárfesta sé rétt undir 10% viðmiðunarmörkum Fjármálaeftirlitsins fyrir virkan eignarhlut.

„Slík kaup, ef þau væru yfir 10%, myndu kalla á sérstakt mat á hæfi eigenda, en þessir hlutir miðast að minnsta kosti tveir þeirra við 9,99%. Þannig að það virðist vera að það sé stefnt að því að þetta mat þurfi ekki að fara fram hjá Fjármálaeftirlitinu.“

Katrín segir endanlegt eignarhald á sjóðunum líka vekja spurningar, því það liggi ekki fyrir með skýrum hætti.