Segir eldinn ekki hafa mikil áhrif

17.07.2017 - 09:23
Mynd með færslu
Búið var að slökkva eldinn þegar slökkviliðið kom á vettvang.  Mynd: Hilmar Bragi  -  Víkurfréttir
Slöngur og rafbúnaður í kísilverksmiðju United Silicon í Helguvík bráðnuðu í nótt þegar heitur málmur flæddi úr ofni og á gólf. Töluverðan reyk lagði frá verksmiðjunni í átt að Garði. 

Eldur kviknaði í kísilmálmverksmiðju United Silicon í Helguvík í Reykjanesbæ um þrjúleytið í nótt. Að sögn Kristleifs Andréssonar, umhverfis- og öryggisstjóra verksmiðjunnar, hefur eldurinn ekki mikil áhrif á starfsemina.

„Við ætlum að skoða aðstæður þegar búið verður að kæla málminn á gólfinu. Þetta á ekki að tefja starfsemina mikið. Það er framleiðsla í ofninum en væntanlega þurfum við að tappa af honum með öðrum hætti,“ segir Kristleifur.

1600 gráða heitur málmur flæddi niður á gólf þegar verið var að tappa bránum kísilmálmi af ofni verksmiðjunnar en gatið sem gert var til þess var of stórt. Töluverður reykur myndaðist inni í verksmiðjunni, að sögn Kristleifs. 

Starfsmenn verksmiðjunnar slökktu eldinn og segir Kristleifur að engan hafi sakað. Slökkviliðsmenn voru á staðnum í nokkra stund eftir að búið var að slökkva eldinn. Töluverðan reyk lagði frá verksmiðjunni í átt að Garði. 

Eldur kom síðast upp í verksmiðjunni 18. apríl síðastliðinn og tók Umhverfisstofnun þá ákvörðun í kjölfarið að stöðva starfsemina. Hún hófst svo aftur 21. maí undir eftirliti stofnunarinnar.