Sara Björk: „Við hreinlega getum ekki beðið“

17.07.2017 - 18:50
Nú er aðeins um sólarhringur í fyrsta leik Íslands á Evrópumóti kvenna í fótbolta og fyrirliðinn segir liðið orðið ansi spennt. Ísland mætir Frakklandi á Willem II vellinum í Tilburg annað kvöld og planið er að ná í allavega eitt stig.

Fyrirliðinn Sara Björk Gunnarsdóttir er nú mætt á sitt þriðja Evrópumót með kvennalandsliðinu og sagði á blaðamannafundi í dag margt hafa breyst frá fyrsta móti sínu og liðsins í Finnlandi 2009

„Þetta er náttúrulega EM, þetta er geggjað og þetta er ótrúlega stórt og við bara getum ekki beðið eftir þessu,“ segir Sara. 

Íslenska liðið þarf helst að næla í stig í þessum leik ef það ætlar sér áfram upp úr riðlinum en flestir eru sammála um að franska liðið sé það allra sterkasta af fjórum liðum riðilsins og jafnvel það besta í heimi. 

„Öll pressan er á þeim. Þetta er náttúrulega bara heimsklassa lið og það eru miklar væntingar frá frönsku þjóðinni um að þær taki þetta í ár en við ætlum að reyna að stoppa það,“ segir Sara. 

Viðtal við landsliðsfyrirliðann má finna í spilaranum að ofan. 

Mynd með færslu
Edda Sif Pálsdóttir