Samfélagið þarf að kenna íslensku

04.07.2017 - 12:10
„Ef við missum þetta tungumál, þá missum við stóran þátt sjálfsmyndar okkar og tengsl við fortíðina. Kannski er það tungan sem öðru fremur gerir okkur sérstök,“ sagði Jón Karl Helgason, prófessor í íslensku, á Morgunvaktinni. Umræðuefnið var menningararfurinn og íslensk tunga á tímum alþjóðavæðingar og hraðra tæknibreytinga. Hann segir brýnt að yfirvöld móti miklu ákveðnari stefnu í að kenna innflytjendum og áhugasömum gestum okkar að tala íslensku.

Jón Karl Helgason hefur fjallað mikið, skrifað bækur og greinar, um menningararfinn, og hann er greinarformaður í námsgreininni íslenska sem annað mál. Sú grein hefur vaxið og dafnað og nemendum fjölgað mjög á síðustu árum.

Á Morgunvaktinni ræddi Jón Karl þá miklu áskorun að kenna nýjum íbúum og gestum okkar íslensku. „Ég held að það sé stóra verkefnið hjá okkur. Þá er ég ekki að tala um okkur vestur í Háskóla. Ég er að tala um okkur öll. Að gera íslenskunám eins aðgengilegt og ódýrt og mögulegt er – fyrir alla. Mín reynsla er sú, hvort sem það eru innflytjendur eða aðrir sem áhuga hafa á Íslandi, það er gríðarlegur áhugi á að læra íslensku.“ Jón Karl segir mikilvægt að við sem samfélag séum tilbúin að tala íslensku við áhugasama útlendinga, sýna þeim þolinmæði, ekki hrökkva yfir í ensku.

„Ég kalla eftir miklu ákveðnari stefnu frá yfirvöldum. Það er að fjölga mjög hratt þeim sem hér búa og hafa ekki íslensku sem móðurmál. Við eigum að gera það gríðarlega eftirsóknarvert, og eins ódýrt og hægt er, að læra íslensku.“

Jón Karl Helgason segir að gríðarlega mikil breyting hafi orðið á samfélaginu á síðustu áratugum og hún mótist af ýmsu, ekki síst í miðlun efnis, því að komast í samband við menningaráhrif utan sveitarinnar. „Nú vitum við eftir 10 sekúndur hvað gerist í Norður-Kóreu.“ Öll menningarleg landamæri hafa máðst út. Jón Karl bendir á að landamæri séu huglæg. Frá miðri nítjándu öld hafi lestrarfélög pantað lesefni að utan, síðan hafi Útvarpið komið með erlenda tónlist. Allt mótar þetta hugmyndir okkar og verður hluti af íslenskri menningu. En valdið hefur færst til, ritstjórnarvaldið: „Ýmislegt sem við héldum að væri óumbreytanlegt, t.d. menningarstofnanir sem ákváðu fyrir þjóðina hver smekkurinn ætti að vera, hvað fólk ætti að hlusta á, hvað því ætti að finnast – nú er þetta meira og minna í höndum hvers og eins.“

En hvað er sérstakt við íslenskan menningararf? „Hann er á íslensku! Það er mjög sérstakt. Og í rauninni mjög mikill og merkilegur miðað við hvað þetta hefur alltaf verið fámennt málsamfélag. Við erum stolt af miðaldabókmenntum okkar og þær eru mjög umfangsmiklar.“ Jón Karl segir að Íslendingar hafi í raun stærri menningarlegan fjársjóð að sækja í en margar fjölmennari þjóðir. Hann nefndi sem dæmi að við ættum margt sameiginlegt með  þjóðum í austanverði álfunni, sem leituðu sjálfstæðis og sjálfsímyndar, en forskot okkar hafi falist í bókmenntaarfinum. „Ég held að við höfum ennþá forskot. Miðaldabókmenntirnar eru gjaldgengar alþjóðlega. Þær eru þekktar. Það er fólk út um allan heim að rannsaka þær, að ávaxta þennan arf með ýmsum hætti, með kvikmyndum, tölvuleikjum, teiknimyndasögum.“

„Þetta er vegabréf, sem allir Íslendingar halda með út í heiminn.“

En hvað er einstakt hjá þjóð? Varla getur önnur þjóð hafa átt mann eins og þjóðskáldið Jónas Hallgrímsson? Jón Karl Helgason sagði á Morgunvaktinni frá alþjóðlegum rannsóknum sem stríddu gegn þeirri sjálfsmynd okkar.  „Allt er þetta byggt á uppskrift, sem er sú sama í öllum Evrópulöndum. Til þess að vera þjóð þarftu að eiga þjóðskáld og þú ræktar minningu þess með tilteknum hætti.“ Ekki einu sinni beinaflutningurinn milli landa og sveita hafi verið einstakur. Svipað hafi gerst í öðrum löndum. Skáldin hafa verið gerð að dýrlingum, og raunar á það við um fleiri listamenn, sem orðið hafa táknmyndir þjóða sinna. Þarna er leitað fyrirmynda í hinum trúarlega arfi.

Já, það var farið vítt í þessu þriðjudagsspjalli á Morgunvaktinni um menningararfinn og tunguna. Allt breytist. Við breytumst. Áfram verðum við þó Íslendingar og málið sem við tölum íslenska.

Mynd með færslu
Óðinn Jónsson
dagskrárgerðarmaður
Morgunvaktin
Þessi þáttur er í hlaðvarpi