Rússar banna „öfgasamtökin“ Votta Jehóva

21.04.2017 - 00:23
Members of Jehovah's Witnesses wait in a court room in Moscow, Russia, on Thursday, April 20, 2017.  Russia's Supreme Court has banned the Jehovah's Witnesses from operating in the country, accepting a request from the justice ministry that
Safnaðarmeðlimir Votta Jehóva bíða úrskurðar í dómssal hæstaréttar í Moskvu.  Mynd: AP
Trúarhreyfingin Vottar Jehóva telst nú til öfgasamtaka í Rússlandi og starfsemi safnaðarins því ólögleg þar í landi héðan í frá. Þetta er niðurstaða hæstaréttar í Moskvu. Auk þess að banna alla starfsemi Votta Jehóva úrskurðaði hæstaréttardómarinn Júrí Ivanenkó að gera skyldi allar eigur safnaðarins upptækar. Mál safnaðarins var tekið upp af dómstólum eftir að dómsmálaráðuneytið krafðist þess að hann yrði skilgreindur sem öfgasamtök og bannaður sem slíkur.

Interfax-fréttastofan hefur eftir talskonu ráðuneytisins að Vottar Jehóva og starfsemi þeirra séu ógn við réttindi borgaranna, almannafrið og öryggi almennings. Einkum þykir málgang safnaðarins, Varðturninn, vera boðberi hættulegra öfga, og bann við því að safnaðarmeðlimir þiggi blóðgjafir er skilgreint sem mannréttindabrot.

Talsmaður Votta Jehóva, Jaróslaw Siwulski, er sleginn vegna úrskurðar hæstaréttar. „Ég hefði ekki trúað því að þetta væri hægt í Rússlandi nútímans, þar sem stjórnarskráin tryggir trúfrelsi borgaranna,“ sagði Siwulski eftir að dómur var upp kveðinn, og sagði að málinu yrði skotið til Mannréttindadómstóls Evrópu í Strassborg. Vottar Jehóva reka 395 kirkjur eða svokallaða ríkissali í Rússlandi og eru safnaðarmeðlimir um það bil 170.000 talsins. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV