Ríkisendurskoðun snuprar Landsbankann

21.11.2016 - 11:50
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhann Bjarni Kolbeinsson  -  RÚV
Ríkisendurskoðun gerir alvarlegar athugasemdir við sölu Landsbankans á ýmsum eignum á árunum 2010 til 2016 í skýrslu sem birt er í dag. Þar segir að verklagi bankans við eignasölu hafi í vissum tilvikum verið ábótavant. Það hafi hvort tveggja orðið til að skaða orðspor bankans og leitt til þess að í sumum tilfellum hafi ekki verið fullreynt hvort bankinn gæti fengið meira fé fyrir eignirnar en raun bar vitni. 

Setja út á sölu fyrirtækja og eignasafna

Dæmi um þetta er sala Landsbankans á eignarhaldsfélaginu Vestia og Icelandic Group haustið 2010. Kaupandinn var Framtakssjóður Íslands, stofnaður af lífeyrissjóðunum og Landsbankanum sem átti innan við fimmtungshlut í Framtakssjóðnum. Ríkisendurskoðun bendir á það í skýrslu sinni að niðurstaðan úr lokuðu söluferli hafi verið að Framtakssjóður greiddi 13,9 milljarða króna fyrir Icelandic Group. Það félag átti 31 dótturfélag og ári síðar seldi Framtakssjóður tólf af þessum dótturfélögum fyrir sömu fjárhæð og hann greiddi fyrir Icelandic Group og öll dótturfélögin. Sá sem keypti tíu af dótturfélögunum tólf af Framtakssjóð hafði óskað eftir viðræðum við Landsbankann um kaup á þessum dótturfélögum en verið synjað, áður en samstæðan var seld.

Ekki brugðist nógu snemma við gagnrýni

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er bent á þá opinberu gagnrýni sem Landsbankinn sætti þegar hann seldi fyrirtæki án þess að bjóða þau út eða gefa fleirum en kaupendum færi á að bjóða í þau. Þetta hefði þó ekki dugað til að bankinn seldi seinni félög í opnu söluferli. Dæmi um það er Promens, sem Framtakssjóður Íslands keypti. Það var selt í tvennu lagi. Nær helmingur hlutafjár var seldur 2011 en það var ekki fyrr en seinni helmingurinn var seldur þremur árum síðar að fleiri fengu að bjóða í hlutinn.

Eitt dæmi til viðbótar er salan á hlut Landsbankans í Framtakssjóði og IEI. Bankinn mat hlut sinn á átta milljarða króna en seldi fyrir sjö milljarða í lokuðu ferli. Þar höfðu aðrir eigendur Framtakssjóðs forkaupsrétt. Ríkisendurskoðun gagnrýnir Landsbankann fyrir vinnubrögðin við söluna og sérstaklega að hún var ekki gerð með fyrirvara um samþykki bankaráðs eins og kveðið sé á um í starfsreglum bankaráðs. 

Ráðfærðu sig ekki við eigin sérfræðinga

Salan á hlut Landsbankans í Borgun hefur tíðum verið gagnrýnd og tekur Ríkisendurskoðun undir það. Bent er á að samið hafi verið við hóp fjárfesta og stjórnendur Borgunar sem hefðu haft yfirburðaþekkingu á félaginu án þess að Landsbankinn reyndi að jafna aðstöðumuninn með nákvæmri skoðun eða opnu söluferli. Ríkisendurskoðun telur að Landsbankinn hefði haft nægan tíma til að standa betur að sölunni innan á þeim tíma sem hún var í undirbúningi. Þá segir Ríkisendurskoðun að vitneskja um valrétt Borgunar af Visa Europe hafi verið til staðar innan Landsbankans en að þeir sem tóku ákvörðun um sölu hafi ekki leitað til sérfræðinga bankans í greiðslukortamálum. Þá hafi Landsbankamenn ekki gert laga- og tæknilega áreiðanleikakönnun á gögnum um fyrirtækið þó slíkt hefði átt „að vera eðlilegur hluti af söluferlinu og forsenda upplýstrar skoðunar á tilboðinu“.

Ríkisendurskoðun gagnrýnir líka að salan á Valitor hafi ekki verið í opnu ferli og hvernig starfsemi Hamla ehf. var háttar. Hömlur voru eignarhaldsfélag Landsbankans sem seldi fjölda mikilvægra eigna bankans sem hann hafði fengið upp í hendurnar vegna skulda eigenda eða fyrirtækjanna sjálfra. Ríkisendurskoðun finnst sem starfsemi félagsins hafi orðið til að flækja ábyrgð á sölu eignanna.

Hvatt til úrbóta á nokkrum sviðum

Ríkisendurskoðun leggur fram ábendingar um nokkur atriði sem þarf að laga. Fjórum er beint að Landsbankanum og einu að fjármála- og efnahagsráðuneytinu. 

Ríkisendurskoðun hvetur bankaráð Landsbankans til að grípa til aðgerða til að endurreisa orðspor og trúverðugleika Landsbankans. Til þess þurfi að fylgja eigandastefnu ríkisins og öðrum reglum um góða stjórnarhætti og heilbrigð og eðlileg viðskipti. Einnig þarf að tryggja að starfsreglum bankaráðs sé fyllt, að gögnum sé skilvíslega haldið til haga og að skýrt verði hvar ábyrgð liggi milli bankans og dótturfélaga hans. 

Þá hvetur Ríkisendurskoðun fjármála- og efnahagsráðuneytið til að taka reglur og eigendastefnur um eignasölu til endurskoðunar. Skerpa verði á þeim og tilgreina hvort heimildir til undanþágu frá meginreglum eigi rétt á sér og þá í hvaða tilvikum og hvernig.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV