Ríkið kaupir jörðina Fell við Jökulsárlón

09.01.2017 - 17:23
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Rúnar Snær Reynisson  -  Jökulsárlón
Ríkissjóður hefur ákveðið að nýta forkaupsrétt á jörðinni Felli í Suðursveit. Jörðin liggur að Jökulsárlóni. Hún var seld nauðungarsölu í nóvember til að slíta sameign. Hæsta tilboð sem barst var frá Fögrusölum ehf., dótturfélagi Thule Investments og nam 1.520 milljónum króna. Ríkið gekk inn í þessi kaup og greiðir 1.520 milljónir króna fyrir jörðina. Gert var ráð fyrir kaupunum í fjáraukalögum ársins 2016.

Eystri bakki Jökulsárlóns tilheyrir jörðinni Felli. Jökulsárlón er einn vinsælasti ferðamannastaður landsins. Talið er að um hálf milljón ferðamanna hafi lagt leið sína að lóninu á síðasta ári. Samkvæmt skipulagi er allt uppbyggingarsvæði við Jökulsárlón innan landamerkja Fells. Vestari bakki lónsins er þjóðlenda.

Jörðin er á náttúruminjaskrá og keypt á grundvelli laga um náttúruvernd, að því er fram kemur á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins.